Espergærde. Að hugsa sér eða að hlúa að hinu fyndna

Ég náði mun seinna heim í gærkvöldi en ég hafði gert ráð fyrir; ég sá að klukkan á brautarpallinum var að nálgast hálf tvö að nóttu. Ég steig út úr lestinni frá Kaupmannahöfn, gekk út á regnvotan brautarpallinn í Espergærde og furðaði mig á hve margir ferðuðust með járnbrautarlest svo seint. Þarna voru skrifstofumenn á heimleið með skjalatöskur sínar, snyrtilegar konur á támjóum skóm, örugglega að snúa aftur eftir vinkonustefnumót, tvær eldri konur stigu líka af lestinni og ég var viss um að þær hefðu verið inni í Kaupmannahöfn að passa barnabörn. Ég sjálfur átti að baki langan fimmtudag með þremur manneskjum sem ég hef aldrei hitt fyrr. Og niðurstaða þessa fundar er enn að vefjast fyrir mér, nú að morgni næsta dags, þegar ég skrifa þessi orð.

Mynd af nóttinni í Espergærde.

Ég gleymi. Ég gleymi andlitum, orðum, stöðum, samtölum, bókum sem ég hef lesið, kvikmyndum sem ég hef séð, en samt hrekkur eitthvað í gang þegar ég tek þátt í spurningakeppni. Þá gerist eitthvað, heilinn á mér fer í gír og um leið og ég heyri spurninguna kemur svarið fram á varir mínar. Ég er jafnhissa og aðrir þegar svarið þýtur út úr munninum á mér.

Ég segi frá þessu hér því þegar ég hitti manninn sem ég átti stefnumót við í gær, kvikmyndagerðarmanninn með alskeggið, byrjaði hann – eftir örstutta kynningu – að leggja fyrir mig og tvo aðra þátttakendur í stefnumótinu (ungar konur) spurningar sem áttu að sýna almenna þekkingu okkar. Hvers vegna við þurftum að gangast undir þetta próf er mér enn hulin ráðgáta. Ég gat hins vegar svaraði öllum spurningum rétt. Síðasta spurningin sem hann bar upp var Biblíutilvitnun. Við sátum fjögur við borðið inn á kaffihúsi sem heitir Elliot. Kvikmyndagerðarmaðurinn með alskeggið sat við hlið mér og ungu konurnar tvær sátu andspænis okkur. Hann virtist kunna spurningarnar utan að. Fyrir framan sig á borðinu hafði hann lagt penna og línustrikað blað. Þar punktaði hann niður stig okkar þriggja í spurningarkeppninni.

Á borðinu við hliðin á mér sátu karl og kona. Þau voru á miðjum aldri og drukku kaffi með mikilli mjólkurfroðu. Ég skynjaði að það var leynd yfir þeim, þau stungu saman nefjum og hálfhvísluðu þegar þau töluðu og horfðu flóttalega á okkur sem sátum við hlið þeirra eins og þau ættu ekki að vera þarna saman (eða hvort fyrir sig) á kaffihúsinu Elliot á miðjum degi. Þau töluðu um erfiðleika á sameiginlegum vinnustað; erfiðleika í samskiptum við eina ákveðna konu, þetta heyrði ég án þess að hlusta. En ég ætlaði ekki að segja frá þessum laumulegu samstarfsfélögum heldur síðustu spurningu kvikmyndgerðarmannsins með alskeggið. „Hvaðan kemur eftirfarandi tilvitnun,“ spurði hann. „Sá sem elskar visku, gleður föður sinn, en sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum.“ Ég svaraði samstundis: „Orðskviðirnir.“ Ég vissi ekki að ég vissi þetta.

Kvikmyndagerðarmaðurinn með alskeggið horfði undrandi á mig og spurði forviða: „Hefurðu lesið Biblíuna?“
„Já, en ekki frá upphafi til enda,“ svarði ég.
Kvikmyndagerðarmaðurinn með alskeggið virti mig hugsandi fyrir sér eitt augnablik og ég skynjaði að nú var komið að stund játninga. „Ef Guð gæfi mér kost á að fæðast aftur mundi ég bara samþykkja það með einu skilyrði,“ sagði hann. Þessi játning kom algerlega eins og þruma úr heiðskýru lofti og var fullkomlega úr takti við samskipti okkar fram að þessu.
Við hin, sem sátum í kringum borðið, þögðum og biðum eftir að hann opinberaði skilyrðið sem hann taldi sig geta sett Guði fyrir endurfæðingu. Hann leyfði eftirvæntingu okkar að lifa fulllengi, dró framhaldið á langinn, gerði ef til vill aðeins of mikið drama úr þessari játningu sinni. Kannski hafði hann bara þörf fyrir athygli eftir að hafa svo lengi einbeitt sér að okkur þremur. En svo kom framhaldið. „Ég mundi segja við Guð: ‘Ég vil einungis fæðast aftur ef ég eignast fjölskyldu; pabba og mömmu, og systkini sem elska mig, sýna mér skilyrðislausan kærleika.’“ Jahá.

Þetta var í alla staði áhugaverður fundur fyrir mig og ég er enn að reyna að átta mig almennilega á hvað þetta allt gekk út á. Ég lærði ekkert nýtt. Held ég. En mér var boðið að koma aftur eða eins og kvikmyndgerðarmaðurinn með alskeggið sagði þegar við kvöddumst á Metro-stöðinni við Christianshavn: „Boð mitt um að þú getir komið að töflunni stendur opið.“ Ég náði ekki að spyrja hvað hann ætti við með þessari töflu því hann faðmaði mig skyndilega og jafnskyndilega hafði hann snúist á hæli og var á leið burt.

Þegar ég vaknaði í morgun, leyfði ég mér að liggja svolítið lengur en venjulega upp í rúmi. Ég hugsaði um atburði gærdagsins og fannst að ég þyrfti að venja mig á að tala aðeins hægar. Segja jafnmikið, en á lengri tíma.

Bókmenntamoli. Á tímum hnignunar dagblaða og tímarita er að minnsta kosti eitt blað um bókmenntir sem vex og dafnar. Þetta er The London Review of Books (oft kallað LRB) undir stjórn Mary-Kay Wilmers. Upplag blaðsins hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 1985. Hernaðaráætlun Mary-Kay og samstarfsfólks hennar er að bjóða lesendum upp á lesefni, sem sagt er að lesendur kæri sig ekki um – eins og greinar sem eru mörg þúsund orð og hugmyndir sem eru svo skrýtnar að þær passa ekki inn hjá öðrum prentmiðlum. Mary-Kay hefur tekist að minna þá sem skrifa fyrir The London Review of Books á að heimurinn er frekar fyndinn og það er einmitt hið fyndna sem þarf að hlúa að.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.