Ég get sagt það strax, hér og nú, að ég var gersamlega búinn á því í gær. Við fengum gesti í gærkvöldi og ég átti svo sannarlega erfitt með að leggja minn skerf til veislufjörsins. Ég held að þetta séu eftirköstin eftir fundinn með kvikmyndgerðarmanninum frá því á fimmtudaginn. Þetta var svo intenst, þessi fundur, allt saman. Og svo svaf ég alveg til klukkan átta í morgun og hefði getað sofið lengur. En ég hef innbyggða skömm á því að sofa lengi og hana yfirvinn ég ekki. Ég fer ekki seint á fætur. No!

Bókmenntamoli: Rithöfundurinn Bernardine Evaristo vann ásamt Margaret Atwood hin svokölluðu Booker-bókmenntaverðlaun. Það hefur sýnt sig að verðlaunin hafa í för með sér gagngerar breytingar á höfundarferil þeirra sem þau hljóta. Sem dæmi hafði bók Bernardine Evaristo, skáldsagan Girl, Woman, Other selst í 4.391 eintaki frá útgáfudegi, fimm mánuðum fyrr, þar til verðlaunin voru afhent. Fimm dögum eftir Booker-verðlaunatilkynninguna seldust 5.698 til viðbótar og bókin varð gersamlega uppseld. Útgefandi Bernardine forlagið Hamish Hamilton setti þegar í stað í gang prentun á nýju upplagi; 90.000 bækur verða prentaðar. Þetta er upphafið á nýjum tímum fyrir rithöfundinn.
Bókmenntamoli 2. Sjálfur fann ég fyrir svokallaðri „höfundarveiki“ eftir að hafa unnið bókarverðlaun. Þegar athyglin sem útgáfa bókar minnar vakti fór að dvína blossaði „höfundarveikin“ upp.. Ég stóð mig að því að bíða eftir næstu uppákomu, næsta ritdómi, næstu viðbrögðum lesenda, næstu útlandasölu … Ég fór meira að segja að hugsa um hvernig höfundur reyna í sífellu að vekja athygli á eigin verkum með því að pósta hinu og þessu á facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Mér hefur alltaf þótt aumkunarvert að hampa sjálfum sér opinberlega og ég get ekki tekið þátt í því. En efinn settist að í hinum „höfundarveika“ huga. Týnist bókin mín ef ég prívat og persónulega berst ekki fyrir bókinni minni? Gleymist hún alveg? Mér þætti það leiðinlegt ef enginn nennti að lesa söguna því ég segi það í einlægni að ég var bæði stoltur að hafa skrifað þessa spennusögu og ánægður með að fá bókina útgefna. En ég reyni að láta sem ekkert sé og vona að einhver lesi bókina sér til ánægju.