Espergærde. Sauður á meðal úlfa

Það er auðvitað hlægilegt – eins og svo margt annað sem ég tek mér fyrir hendur – að ég hlaupi af stað út í sunnudagsmorguninn – löngu áður en bæjarbúar vissu að það var kominn morgun – til þess að skipta um bók í skrifstofuglugganum. Ný „ugens bog“ varð að vera á sínum stað ekki síðar en strax. Fyrir hverja ætli það sé mikilvægt að bók vikunnar sé á sínum stað á réttum tíma? Á sunnudagsmorgni?

En það er auðvitað ekki rétt þegar ég segi að aðrir bæjarbúar hafi legið meðvitundarlausir um nýjan dag. Þannig var það ekki, því á leið minni til baka frá skrifstofunni – hálf undrandi á sjálfum mér að hafa fundið fyrir þessari knýjandi þörf að setja bók vikunnar á sinn stað – mætti ég Peter, manninum með hundinn. Hann var úti að ganga með kaffikrúsina sína í hægri hendi.

Hann virtist glaður að sjá mig og brosti sínu breiðasta.
„Góðan daginn, herr forlægger,“ sagði hann kankvís.
„Má ég minna þig á að það eru nærri því tvö ár síðan ég hætti að gefa út bækur. Ég er ekki lengur forlægger.“
„Já, fyrirgefðu. Á ég að segja herr direktør?“
„Whatever…“
„Ég er búinn að fá nýja vinnu og það er algerlega klikkað. Ég veit ekkert hvað ég á að gera, ég veit ekki hvert verkefni mitt er á vinnustaðnum. Þetta er total kaos. Ég sit bara með hjartað í buxunum og reyni að sýnast upptekinn en ég veit ekkert hvað er í gangi á vinnustaðnum.“
„Hvar ertu að vinna?“
„Tölvufyrirtæki … Ég held að það sé Íslendingur sem eigi það, ég hef ekki hitt hann, en hann hefur íslenskt nafn … Það er að minnsta kosti fullt af starfsfólki. Það er eins og ég, sauðurinn, hafi verið sendur meðal úlfa. Ég minni mig á að ég verð að vera kænn eins og höggormur og falslaus sem dúfa.“

Bókmenntamoli: Nú er ég búinn að fá bók Berþóru Snæbjörnsdóttur í hendurnar, Svínshöfuð heitir bókin, og ég hef lesið tvo kafla. Ég held að þetta sé mjög góð bók. Ég er líka búinn að fá ferðabók Huldars Breiðfjörð og hana, Sólarhringl, hef ég lesið til enda. Þetta er ekki ný Góðir Íslendingar-saga eða tilraun til að endurtaka það velheppnaða projekt. Þótt Huldar ferðist aftur um landið í nýju bókinni sinni, nú á puttanum, á hann annað erindi í þessari fínu bók. Huldar er svo lúmskt fyndinn og það kann ég vel að meta. Ég hló oft upphátt þegar ég las bókina og það geri ég ekki oft þegar ég les bækur. Nú langar mig að lesa nýja bók Dags Hjartarsonar. Ég verð að útvega mér hana.

Bókmenntamoli 2. Mér var sagt frá manni sem þegar væri búinn að kaupa sex af jólabókunum í ár og ég hugsaði með mér: Þetta verður geðveikt góð jólavertíð. Yo!

Viðbót: Nú hef ég verið spurður oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í dag hvaða bók sé bók vikunnar – ugens bog – eins og það sé mikilsvert að vita. Ég upplýsi því hér og nú að þessa viku er bókin Lolita eftir Vladimir Nabokov úti í gluggaútstillingunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.