Espergærde. Sviminn og draumarnir

Síðustu vikur hef ég af og til fundið fyrir svima, stundum svo svæsnum að ég er eins og blindfullur maður; slaga og styð mig við veggi. Í morgun þegar ég fór á fætur kom þetta aftur yfir mig. Ég fór að velta fyrir mér hvað þetta gæti verið og ég komst að þeirri niðurstöðu að „höfundarveiki“ mín hlyti bara vera komin á nýtt stig. Svimastigið.

Og svo dreymir mig þetta stóra iðnaðarhúsnæði aftur og aftur. Og aftur og aftur hef ég sett skrifstofuna mína þar inn, inn í þetta gímald og hef hugsað mér að gera allt saman upp, gera allt fínt og fá fullt af góðu fólki til að hafa skrifstofu þarna með mér. Þetta dreymir mig endurtekið. En mér tekst hvorki að endurnýja húsnæðið af neinu viti og mér tekst heldur ekki að fá gott fólki með mér. Þetta er furðu óþægilegt; bæði sviminn og draumurinn. Ég ætla í bíó í dag til að sjá Honeyland og þá verður allt gott aftur. Yo!

Bókmenntamoli: Jon Fosse er fæddur í Noregi (árið 1959) og af mörgum talinn eitt mesta skáld Norðurlanda. Hann fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2015. Nú hefur Jon Fosse skrifað nýja bók sem er nýútkomin í Noregi og er hvorki meira né minna en 1250 síður. Í bókinni er enginn punktur. Norski titill bókarinnar er: Septologien. Sagan er svo löng að ákveðið var að gefa hana út í þremur bindum. Fyrsta bindið er komið í dreifingu og móttökurnar eru góðar, svo stórkostlegar að einn af gagnrýnendunum krafðist þess að fá að sprengja einkunnaskalann (upp á við). Jon Fosse var spurður af hverju væri svo erfitt að útskýra hvað gerði bækurnar hans svona frábærar. Og skáldið svaraði í allri auðmýkt: „Maður getur ekki endursagt góða tónlist, ekki heldur gott ljóð. Já, um hvað er bókin? Ekkert? Nei, en þú getur ekki sagt hvað það er. Það er eitthvað á bak við tungumálið sem gerir listina og skáldskapinn svo mikilvægan fyrir mig. Sem sagt þegar skáldskapurinn er góður.“ Á íslensku hafa komið út bækurnar Andvaka, Kvöldsyfja, Draumar Ólafs, Morgunn og kvöld og Þetta er Alla.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.