Espergærde. Lygalíf fullorðinna

Ég velti fyrir mér í morgun hvort það gæti verið tíska hjá ungum karlmönnum að lakka á sér neglurnar. Ekki að ég íhugi að setja naglalakk á mínar eigin neglur, ég er bara að velta þessu fyrir mér því að í ferð minni með lest í vikunni tók ég eftir að ungur karlmaður sem sat andspænis mér á leið til Kaupmannahafnar hafði lakkað á sér neglurnar í skærbleikum lit. Ég hef ekki séð þetta áður svo mér varð sennilega starsýnt á manninn og neglurnar. Þetta sá ég svo aftur í gærkvöldi. Hinn nýi handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs tók við verðlaununum með höndum sem skreyttar voru með sama bleika naglalakkinu og ég hafði séð í lestinni til Kaupmannahafnar fyrr í vikunni.

Já, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2019 voru sem sagt veitt í gær og vakti val dómnefndar töluverða athygli og undran sumra sem höfðu búist við öðrum vinningshafa. Við verðlaununum tók ungur, danskur maður, hinn 28 ára gamli Jonas Eika fyrir bók sína, smásagnasafnið Efter solen. Í þakkarræðu sinni, sem hefur vakið eftirtekt, fór Jonas Eika hörðum orðum um það samfélag sem hann lifir í. Talaði um ríkiskynþáttahatur, talaði um dauðavélar kapítalismans og islamfóbíur þjóðarinnar. Þakkarræða Jonasar var flutt af svo mikilli heift að einn af stjórnendum á sviði verðlaunahátíðarinnar fann sig knúinn til að ganga til Jonasar, áður hin formlega verðlaunaveiting fór fram, til að spyrja hann hvort hann hefði hugsað sér að taka við verðlaununum. Jonas jánkaði því og þáði hinar skattfrjálsu 350.000 DKK úr hendi fulltrúa Norðurlandaráðs. Kannski er bara gott að hann borgi ekki skatt til þeirrar þjóðar sem hann kærir sig svo lítið um.

En það var annar maður sem fyrir löngu, eða árið 1958, fann sig nauðbeygðan til að hafna þeim verðlaunum sem hann hafði áður veitt viðtöku. Það var sjálfur Boris Pasternak, höfundur Doktor Sívagó, sem skilaði aftur Nóbelsverðlaunum sínum með orðunum: „Í ljósi þess orðstírs sem Nóbelsverðlaun hafa fengið í því samfélagi þar sem ég lifi, á ég ekki annarra kosta völ en að hafna þessum óverðskuldaða heiðri. Vinsamlegast verið ekki vonsvikin yfir þessari höfnun sem er gerð af fúsum og frjálsum vilja.“ Hið síðasta er víst ekki alveg rétt því það voru sovésk stjórnvöld sem þvinguðu Boris til að láta verðlaunin aftur af hendi. Þau hin sömu yfirvöld, bönnuðu líka bækur hans og kom Doktor Sívagó fyrst út árið 1987 í heimalandi hans Sovétríkjunum, nær þrjátíu árum eftir að hann skrifaði bókina og 28 árum eftir að hann dó. Ekki veit ég hvað ráðmenn í Sovétríkjunum höfðu á móti bókmenntaverðlaunum Nóbels; kannski eitthvað með dauðavélar kapítalismans?

Hér á Kaktus er fjallað um þrjá höfunda í dag; einn óánægðan með samfélagið sem hann býr í, annan þar sem samfélagið er óánægt með höfundinn og bækur hans og svo kemur nú að þriðja höfundinum sem neitar að koma fram undir réttu nafni. Af þessu gæti maður dregið þá ályktun að ekki sé auðvelt að vera rithöfundur. No!
En nú eru liðin fimm ár síðan Ellena Ferrante sendi frá sér nýja bók og margir bíða í eftirvæntingu eftir nýrri skáldsögu frá ítalska rithöfundinum. Europa Editions, enska forlag Ellena Ferrante, tilkynnti í gær að ný bók höfundarins, sem væntanleg er á ítölsku þann 7. nóvember næstkomandi, verði gefin út í enskri þýðingu þann 9. júní árið 2020. Bókin hefur þegar fengið enskan titil sem er: The Lying Life of Adults. Ekki er enn vitað hvaða íslenska forlag hreppir útgáfuréttinn á hinni nýju bók Ferrante og hvenær hún mun verða væntanleg í íslenskri þýðingu. Fyrir tveimur árum komu út á Íslandi, nær samtímis, tvær skáldsögur eftir Ellena Ferrante, Óþægileg ást hjá bókaforlaginu Bjarti og Dagur höfnunar hjá Benedikt. Það er ekki algengt í íslenskri útgáfusögu að tvær skáldsögur sama höfundar séu gefnar út samtímis af sitthvoru forlaginu. Útgáfusaga Ellena Ferrante á Íslandi er sérkennileg og mun þetta undarlega háttalag eiga rætur í ósamhljómi milli umboðsmanns Ferrante og íslensku útgefendanna tveggja.

Jonas Eikat flytur eldræðu sína.

ps. þótt ég hafi ekki skrifað orðið bókmenntamoli hér í dagbók dagsins bendi ég á að í dag má finna þrjá bókmenntamola. Ég stend enn við loforðið sem ég gaf fyrir nokkru að birta a.m.k. einn bókmenntamola á dag. Lifi bókmenntirnar. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.