Enn er sá 31. október. Alveg eins og í morgun þegar ég sat við dagbókarskrif. Og nú skrifa ég aftur í dagbókina til þess eins að halda tvennu til haga, tvennu sem gerði þennan dag öðruvísi en aðra daga í vikunni.
Í fyrsta lagi fékk ég fyrsta ritdóm lífsins. Það var ágæt reynsla. Kolbrún Bergþórsdóttir, sem er ritdómari hjá Fréttablaðinu, birti ritdóm um bókina sem ég laumaðist til að skrifa. Bókin er sem sagt komin út og Kollbrúnu þótti ástæða til að skrifa um hana í dagblaðinu sínu og segja hvað henni þótti um verkið.
Í öðru lagi varð ég mér til minnkunar vegna bókmenntamola dagsins hér á Kaktussíðunni þar sem ég sagðist bara muna eftir einni bók eftir Stephen King á íslensku. Hið rétta er að meira en tuttugu bækur hafa komið út eftir bandaríska höfundinn í íslenskri þýðingu. En ég hef sjálfur bara lesið eina bók á íslensku eftir Stephen King, Eymd, og henni mundi ég eftir í morgun þegar ég skrifaði. Þessi vanþekking, að muna bara eftir einni bók, þótti auðvitað hlægileg, eins og hún er, og einhver mun víst hafa bent á glappaskot mitt á facebook. Þetta er þó sem betur fer í fyrsta sinn sem ég hef orðið mér til opinberrar skammar með bókmenntamolum mínum. Ég hef fyrir löngu lofað sjálfum mér að birta einn mola á dag. Ég ætla að halda því áfram þrátt fyrir þetta feilspor. Ég tek áhættuna, kannski tekst mér aftur að vekja opinbera athygli, kannski á höfundi, bók eða bara bókmenntum, en með jákvæðari hætti en í dag.