Espergærde. Fylgdarmaðurinn

Á fimmtudagsmorgni eru ekki margir á ferli hér fyrir utan kontórgluggann hjá mér; ég sé enga aðra hreyfingu en að greinar trjánna bifast hægt í golunni. Annars gæti myndin sem blasir við mér verið kyrramynd. Ljósmynd af lífinu á fimmtudagsmorgni. En það er ekki venjulegur fimmtudagsmorgunn; í dag er 31.október, hvorki meira né minna en afmælisdagur Palla Vals. Hann er sennilega sá núlifandi maður sem ég hef þekkt lengst, fyrir utan systkini mín. Við höfum fylgst að síðan ég var fimm ára. Það er langur tími.

Þegar ég vaknaði í morgun varð mér eiginlega strax hugsað til Palla á afmælisdeginum og þar sem ég lá undir sænginni minni og beið þess að dagurinn byrjaði, sá ég fyrir mér morgnana þegar við vorum á níu og tíu ára að bera út Moggann í Álftamýrinni. Ég sá okkur tvo fyrir mér á rölti upp Álftamýrina í íslensku morgunmyrkri, með blaðburðartösku yfir öxlina, og lífið var svo notalega einfalt. Í þá daga datt mér til dæmis ekki í hug að Mogginn hefði einhverja pólitíska stefnu sem gæti verið í berhöggi við það sem mér fannst, í andstöðu við það sem ég vildi að heimurinn sæi í mér. Ég bar líka út Þjóðviljann, Tímann, Alþýðublaðið. Allt var gott. Okkur datt ekki einu sinni í hug að Sjálfstæðiflokkurinn stæði fyrir eitthvað. Ég man að við Palli buðum okkur einu sinni fram til að vinna fyrir kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Háaleitishverfi vegna þess að við höfðum heyrt að maður gæti borðað þar eins margar kökur og maður vildi og drukkið eins margar kókflöskur og manni langaði til. Það var alveg nóg til að við hugsum hlýlega til Sjálfstæðisflokksins.

En nú er tíðin önnur, maður getur varla andað lengur án þess að merkja sjálfan andardráttinn einhverri stefnu. Ég hef fengið nóg af stefnum í dag, 31. október. Heimurinn er ekki vondur.

Bókmenntamoli: Bandaríski rithöfundurinn Stephen King hefur aldrei verið sérlega vinsæll á Íslandi og ég man satt að segja bara eftir einni bók eftir hann á íslensku, Eymd. En ég minnist á Stephen King hér þar sem ég heyrði að hann hafði í hyggju að breyta heimili sínu í Bangor, Maine í rithöfundaíbúðir og safn fyrir fræðimenn. Stephen King er mjög í mun að heimili hans í Bangor (King býr nú stærstan hluta ársins í Florida) verði ekki staður sem ferðamenn flykkjast til og því hefur hann takmarkað notkun hússins við að fræðimenn geti pantað tíma til að dvelja í húsinu og fá aðgang að rannsóknargögnum. Einnig geta rithöfundar fengið leyfi til að dvelja í húsinu í nokkrar vikur í senn, mest fimm höfundar samtímis.

Hús Kingfjölskyldunnar sem nú verður breytt í safn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.