Espergærde. Andinn

Einu sinni var manninum skipt upp í líkama, sál og anda. Nú er andinn horfinn. Eftir stendur líkami og sál. Ef talað er um heilbrigt líf er talað um að vera heilbrigður á líkama og sál. En ég sakna andans. Hét andinn ekki pneuma hjá Grikkjunum? Þá var hann til.

„Atvinnuleysið er ágætt,“ er fyrirsögn í dagblaði höfð eftir Ólafi Jóhanni Ólafssyni sem fram að þessu hefur afrekað að vinna fullt starf hjá amerísku fyrirtæki í New York og þar að auki skrifa skáldsögur. Þetta er ótrúleg afköst þykja mér. En skáldabróðir hans tekur sér það leyfi að hnýta í Ólaf fyrir að nota þessa lýsingu á núverandi stöðu sinni á vinnumarkaðinum; að skrifa bara bækur. „Þegar saman koma milljónamæringur og skáld í einni og sömu persónunni má alltaf búast við ódauðlegum tilsvörum.“ segir skáldabróðirinn hæðnislega um yfirskrift viðtalsins. Eins og hann viti ekki að fyrirsögnin er tekin úr samhengi og að Ólafur Jóhann tali í hálfkæringi um stöðu sína sem rithöfundar í fullu starfi. En þar sem Ólafur Jóhann hefur unnið sér inn milljónir með dugnaði sínum og gáfum er í lagi að sparka aðeins í hann. Smálegt þykir mér.

Æ, hvað er ég að æsa mig yfir þessu. Mér kemur þetta bara ekkert við. Ég gleymdi mér í skyndipirringi. Mér leiðist öfund og hælbítar fara í taugarnar á mér.

Bókmenntamoli. Eignaðist Henrik Ibsen barn þegar hann var 15 ára með 14 ára gamalli stúlku? Um þetta deila Norðmenn um þessar mundir. En þessu er haldið fram í nýútkominni ævisögu skáldsins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.