Espergærde. Norskur fíll.

Þótt hér sé sunnudagsmorgun er ekkert sem gefur til kynna að dagurinn sé helgur; helgidagur. Ég heyri ekki í kirkjuklukkum, ég finn ekki fyrir engli fljúga hjá en ég verð var við vörubíl, með pallinn fullan af sandi, keyra upp götuna. Sjálfur hef ég ekki puntað mig sérstaklega fyrir daginn og nú sit ég á stuttermabol með áletruninni TRUE RELIGION sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan kemur.

Bókmenntamoli: Nú fer smám saman að koma gangur í bóksöluna á Íslandi enda nálgast jólin. Óskabarn þjóðarinnar, Andri Snær Magnason, situr sem fastast á toppi sölulistans með bók sína Um tímann og vatnið og þær fréttir berast frá höfuðstöðvum Forlagsins (útgefanda Andra Snæs) að endurprentun hafi verið pöntuð hjá prentaranum í Þýskalandi þótt fyrsta upplag hafi verið upp á heil 8.000 eintök. Væntanlega verða ekki margar þýddar bækur á meðal mest seldu bóka ársins í ár frekar en fyrri ár. Þó er ástandið á íslenskum bókamarkaði ekki eins þjóðernissinnað og á hinum norska. Sagt hefur verið um bókaútgáfu í Noregi að ómögulegt sé að gefa út bækur um annað en það sem er norskt. „Ef maður ætlar að gefa út bók um fíla í Noregi þarf fíllin að vera norskur“ (norskur málsháttur). Á meðal 15 mest seldu bóka í Noregi þessa vikuna er engin útlend bók. No!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.