Þegar ég horfi á hendurnar á mér finnst mér ég alltaf vera að horfa á hendur pabba míns. Hendur okkar eru eins. Nú þegar ég ber samskonar hring á baugfingri og hann, verða líkindin enn sterkari. Þetta minnir mig á atriði í sögu Paul Auster þegar höfuðpersónan finnur lík föður síns, sem hafði verið grafið niður í ís í Ölpunum í 25 ár, og finnst hann vera að horfast í augu við sjálfan sig.
En ég minnist á þetta hér þar sem ég á brúðkaupsafmæli í dag, þann 5. nóvember. Ég sagði engum frá giftingarathöfninni þar sem við Sus vorum ein viðstödd. Svo fékk ég hring á fingurinn nokkrum árum síðar, það var þá sem pabbi minn áttaði sig á að ég væri búinn að gifta mig.
Hann: Ertu búinn að gifta þig?
Ég: Já.
Hann: Didda sagði mér að hún hefði tekið eftir að þú værir með hring.
Ég: Já.
Hann: Ég óska þér innilega til hamingju, Snæi minn.
Bókmennamoli: Félag íslenskra bókaútgefenda tekur saman lista yfir mest seldu bækur landsins í hverjum mánuði. Metsölulisti október mánaðar hefur nú verið sendur út og mörgum til gleði situr Andri Snær Magnason enn á tindi listans. Það sem líka vekur gleði mína er að sjá bók Robert Galbraith, Gauksins gól ,í öðru sæti. Einnig finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá bók ungu skáldkonunnar Fríðu Ísberg svo hátt uppi á sölulistanum með ljóðabók sína Leðurjakkaveður. Þetta er önnur ljóðabók Fríðu en áður hefur hún gefið út ljóðabókina Slitförin. Hún hefur einnig skrifað smásagnasafnið Kláða.
