Espergærde. Skjallbandalagið

Ég kláraði að lesa skáldsögu fyrir nokkrum vikum og ég er enn að furða mig á hversu ómöguleg mér þótti skáldsagan: léleg, leiðinleg, ruglingsleg, röflkennd og óáhugaverð. Ég ákvað samstundis að ég skyldi ekki minnast á þessa bók hér í dagbókinni minni því ég veit að það eru fleiri en ég sem lesa Kaktusinn. En ég var jafnframt pirraður á sjálfum mér að ég skyldi ritskoða mig á þennan hátt. Ég hef hugsað bæði um skáldsöguna (hvað gerði hana svona glataða í mínum huga) og þessa tilhneigingu í samtímanum að öllu er hælt á einhvern hátt. Samfélagsmiðlar hafa gert þjóðina að einu skjallbandalagi. Þeir einu sem ekki fá innistæðulaust hól eru menn sem skara fram úr á einhvern hátt – eða eru háttsettir. En ég hef samt sem áður ákveðið að láta sem ég hafi ekki lesið söguna. Nú er svo komið í mínu mikla lestrarmaraþoni að ég hef algerlega misst töluna, ég gleymi að skrá hjá mér lestrarstundir og lesnar bækur og ég hef ekki stjórn á neinu. Eins gott að ég gleymi þessari bók bara alveg – hún er ekki einu sinni með í lestrarmaraþoninu.

Annars var ég ansi kátur í gærkvöldi rétt þegar ég var að leggjast til svefns. Ég hafði verið úti að spila tennis og leikurinn dróst á langinn svo ég kom seint heim og gat ekki farið að sofa strax (maður er svo upptrekktur) og því fór ég inn í eldhús, fékk mér hrökkbrauð með osti, vatnsglas og stóð við vaskinn í eldhúsinu og fór yfir úrslit fótboltaleikja kvöldsins (meistarakeppnin) og las Politiken á símanum mínum. En svo stóð ég allt í einu bara í eldhúsmyrkrinu, gapti út í loftið og hugsaði með mér: Snæi minn, það er geðveikt flott að þú sért á sama metsölulista og J.K Rowling. (Metsölulisti Félags íslenskra bókaútgefenda barst mér nefnilega í gær og þar sá ég að bókin sem ég skrifaði og bókin sem Rowling skrifaði undir dulnefninu Robert Galbraith eru báðar á topp 10.) Yo! Yo!! Yo!

Bókmennamoli. Ein af þeim bókum sem koma út nú fyrir jól og ég horfi girndaraugum til er bók Guðbergs Bergssonar um Pessoa, portúgalska skáldið. Bókin hefur fengið þennan fína titil: Skáldið er eitt skrípatól: um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. En Pessoa (1888–1935) er einn máttarstólpa í menningarumræðu á tuttugustu öld. Hann var ljóðskáld, gagnrýnandi, heimspekingur og þýðandi en lengi framan af vissu menn ekki hvernig taka átti orðum hans, hver mælti hverju sinni, því hann skrifaði ekki alltaf undir eigin nafni, ekki frekar en Rowling. Hann skapaði í huga sér ótal ólík skáld og orti fyrir munn þeirra, þau helstu voru Alberto Caeiro, Alvaro de Campos og Ricardo Reis.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.