Espergærde. Jafnvægistaugin og hrákinn í andlitið

Það kom í ljós í gær að allur minn svimi sem ég hafði haldið að væri höfundarveiki – sjúkdómur hins örvæntingarfulla bókarskrifara – var eitthvað sem kallast vírussýking á jafnvægistaug. Ég hef gengið um eins og dauðadrukkinn sauður, slagað og vaggað. Þetta hefur verið óþægilegt, svo óþægilegt að ég braut odd af oflæti mínu (kominn tími til) og fékk viðtalsbil hjá lækninum Jósef. Þessi ágæti maður gengur til verks af nákvæmni – hann gerði ótal athuganir á hinum langa Íslendingi – og niðurstaðan var ótvíræð; ekki heilablæðing, ekki of hár blóðþrýstingur, ekki laumudrykkja heldur hafði vírus tekið sér bólfestu á jafnvægistaug.

Bókmenntamoli: Í gær sagði ég frá því að ég treysti mér ekki til að skrifa um hvað mér hefði þótt lítið koma til skáldsögu sem las nýverið. Ég nennti ekki að fá mokað yfir mig skít og skömm á tímum skjallþvingana. Ég átti svo sem ekki von á að einhver hrækti í andlitið á mér, ef ég leyfði mér að gagnrýna skáldsöguna, en ég er bara ekki í stuði fyrir neins konar ónæði um þessar mundir. Ég læt satt kyrrt liggja. Í gær fékk ég svo auðvitað fyrirspurnir um hvaða skáldsögu ég talaði um. Fólk er forvitið. En ég nefni þetta hér vegna þess að ég las í gær að Paris Review tímaritið hefði ákveðið að heiðra Richard Ford, bandaríska rithöfundinn (ekki þýddur á íslensku) með hinum svokölluðu Hadada-verlaunum fyrir framlag hans til bókmenntanna. Vakti þessi ákvörðun tímaritsins mikið harmakvein hjá hópi rithöfunda sem er ekki ánægður með að veita verðlaun til manns sem er þekktur fyrir sína óhefluðu hegðun og bregðast við af miklu offorsi ef einhver leyfir sér að skrifa ógætilega um bækur hans. Þekkt er atvikið þegar Richard Ford hrækti framan í skáldbróður sinn Colson Whitehead.

Colson hafði gerst svo djarfur að skrifa neikvæðan ritdóm um smásagnasafn Richard Fords (A Multitude of Sins). Tveimur árum síðar hittust þeir tveir Richard og Colson í veislu og þá hrækti Richard stórri slummu í andlitið á Colson. Richard skrifaði mörgum árum síðar að „hann hefði sömu tilfinningar til hr, Colson Whitehead, til ritdómsins sem hann skrifaði og hann sæi alls ekki eftir að hafa hrækt framan í hann.“

Alice Hoffman mun einnig hafa skrifað neikvæðan dóm um bók Richard Ford Independence Day og brást Richard við dómnum með því að taka nýjustu bók Alice Hoffmann, skjóta gat í gegnum hana og senda bókina til hennar í póstinum. Í viðtali við The Guardian sagði Ford síðar að „fólk gerði allt of mikið úr þessu – að skjóta bók – ég skaut ekki manneskjuna.“

Hér er mynd af Richard Ford. Þennan mann má ekki styggja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.