Kastrup. Handritin í farteskinu

Þegar Halldór Kiljan Laxness kom heim til Íslands árið 1926 með farþegaskipinu Gullfossi eftir nokkra dvöl ytra skrifuðu dagblöðin full af ákafa og eftirvæntingu að Halldór væri kominn heim og í farteskinu hefði hann meðferðis handritið að Vefaranum mikla frá Kasmír. Blöðin lýstu þessum unga Íslendingi sem gekk um götur Reykjavíkur, þakinn ferðaryki, með mikil gleraugu og barðastóran hatt „tærður af rýni í regindjúp mannlegrar tilveru…“

Um þetta hugsaði ég þegar ég sat við lítið veitingaborð í miðri flughöfn og beið eftir að flugið mitt til Íslands færi í loftið. Ef hin íslensku dagblöð hefðu verið viti sínu fjær af spenningi yfir komu minni; hvaða handrit ég hef meðferðis og hvaða gleraugu ég bæri á nefinu, hefði ég getað upplýst að ég hefði hvorki meira en minna en þrjú handrit í töskunni minni. Ég hef ekki gefið þessum verkum nafn en það hefði verið allt í lagi ef fjölmiðlar hefðu bara nefnt að ofan í svörtu hliðartöskunni hefði ég „þrjú ólík handrit“ án þess að nefna titla verkanna. En auðvitað hefði ég aðeins gefið fjölmiðlum þessar upplýsingar ef þeir hefðu bæði verið fullir af eftirvæntingu og ákafa.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.