Þegar ég fór á fætur í morgun voru tæpir sex klukkutímar í sólarupprás í Hvalfirði. Ég settist við langborðið í stofunni, heitur eftir sturtuna, fékk mér morgunbrauð, hellti upp á kaffi og gaut augunum út í dimmuna fyrir utan gluggann. Í nótt hafði snjóað svo jörðin er alhvít. Á þjóðveginum sá ég snjóruðningstæki, ljósum skreytt eins og jólatré, sniglast inn fjörðinn. Ég hlakka til að sjá hvernig er umhorfs hér þegar birtir. |
Bókmenntamoli: Ian Flemming, höfundur bókana um njósnara hennar hátignar, James Bond, var ákafur áhugamaður um fuglaskoðun. Á ferðalagi um Jamaica, rétt eftir seinna stríð, rakst hann á bók, „Birds of the West Indies,“ eftir fuglaskoðara frá Philadelphia að nafni James Bond. „Þegar ég rak augun í nafn höfundarins laust þeirri hugsun niður í höfuðið á mér að þetta stutta nafn væri bæði mjög karlmannlegt en um leið svo enskt og órómantískt,“ skrifaði Ian Flemming í bréfi til konu fuglaskoðarans.
Þetta hefur alltaf verið hin opinbera sagan á bak við valið á nafni njósnarans í sögum Flemmings. En um mitt síðasta ár komst blaðamaður BBC að því, eftir að hafa farið í gegnum skjöl bresku leyniþjónustunnar sem þá höfðu verið gerð opinber, að maður að nafni James Bond hafði verið undirmaður Ian Flemming í leynilegri deild úrvalsnjósnara sem einbeitti sér að skæruhernaði gegn Hitler. Þessi Bond, sem var járnsmiður frá Wales, hafði að sögn fjölskyldunnar tekið leyndarmálið um njósnarafortíð sína með sér í gröfina og grunuðu þau Ian Flemming um að nota söguna um fuglabókarhöfundinn sem skálkaskjól, til að halda í heiðri leyndarmáli járnsmiðsins.