Hvalfjörður. Verðlaun og listi yfir fólk á vegi mínum

Ástæða Íslandsdvalarinnar að þessu sinni – svo því sé haldið til haga fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar – var þátttaka mín í dagskrá, skipulögð af glæpahöfundsamtökunum Icelandic Noir, sem haldin var í Iðnó í gærkvöldi. Ég kom til Íslands einungis vegna þessarar dagskrár! Yo! Árlega velja þessi samtök bestu þýddu glæpasöguna og veita verðlaun fyrir hana og það kom í minn hlut að veita verðlaunum viðtöku í gærkvöldi – frammi fyrir fullum sal af fólki – fyrir þýðingu á bókinni Hinn grunaði herra X, eftir Keigo Higashino (fínasta glæpasaga). Hér birti ég mynd af verðlaununum:

Þetta er verðlaunagripurinn sem ég tók úr hendi Ragnars Jónassonar glæpasagnahöfundar. Þarna má sjá nafn mitt greipt í verðlaunaskjöld þótt ég hafi þýtt bókina undir nafni Ástu S. Guðbjartsdóttur.

Nú tel ég upp þau nöfn þeirra sem ég þekkti á samkomunni:
1. Á tröppunum fyrir utan Iðnó stóð hópur fólks þegar ég kom aðvífandi, kannski seinna en ég ætlaði mér þar sem ég tafðist við að finna bílastæði í miðborg Reykjavíkur. Í miðjum hópnum, klæddur þykkri vetrarúlpu, stóð Pétur Már Ólafsson. Hann var líka sá sem varð mín fyrstur var og rétti fram hönd sína til að heilsa mér og bjóða mig velkominn. „Velkominn,“ sagði útgefandinn. „Þú ert kominn til að taka við enn einum verðlaunum.“ Og þarna greip Páll Valsson frammí, en hann stóð þarna í hópnum með hatt á höfði til að halda á því (höfðinu) hita. „Þú flýgur heim klyfjaður verðlaunum í hvert sinn sem þú kemur til landsins. Ég var að tala við einn af höfundum mínum (hann nefndi nafnið) og hann lýsti yfir áhyggjum sínum af þessu.“ Og svo breytti Palli aðeins röddinni til að gefa til kynna að hann léki höfundinn sem hann vitnaði í: „Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig hann kemst með öll þessi verðlaun, allan þennan verðlaunaþunga, með sér í fluginu.“

2. Í hópnum stóðu líka Yrsa Sigurðardóttir og maður hennar sem ég þekki ekki en ég held að hann heiti Ólafur. Yrsa var í rauðum kjól og sagði frá því að hún væri einnig klædd gúmmístígvélum svo ekki sæist mikið á henni ef blóðsletturnar í öllu glæpatalinu lentu á kjól hennar. Síðan, á leið okkar inn í Iðnó, vék hann sér að mér hann Ólafur, maður Yrsu, með nokkuð flókna spurningu sem ég vissi ekki almennilega svarið við.
„Til hamingju með bókina,“ byrjaði hann.
„Takk,“ svaraði ég án þess að vita almennilega hvaða bók hann ætti við. Barnasöguna, sem nú liggur í bókabúðum og ég er nærri því búinn að gleyma? Eða átti hann við þessa glæpasögu sem ég var um það bil að fá verðlaun fyrir? Vissi hann að ég hlyti þessi verðlaun, en því hefur verið haldið leyndu?
„Hvaða dulnefni notaðir þú aftur?“ sagði hann svo.
Ég horfði á þennan viðkunnanlega mann og reyndi að skilja hvað hann átti við. Ég nota svo mörg dulnefni, ég er óður í dulnefni.
„Ehhhh,“ var það eina sem ég náði að segja og hann sá að ég var óviss um svarið.
„Undir hvaða dulnefni sendirðu aftur bókina inn?“ hann hló eins og ég hefði gert eitthvað sniðugt.
Ég hafði þýtt glæpasöguna sem var viðfangsefni þessa kvölds undir nafninu Ásta S. Guðbjartsdóttir en ef hann átti við barnabókina þá notaði ég nafnið Júlía. Ég ákvað að segja „Júlía.“
„Já, einmitt,“ sagði Ólafur og hló og kastaði aftur höfðinu því hann skemmti sér svo mikið yfir þessu. Ég veit ekki alveg hvað honum þótti svona fyndið. Ég vissi alls ekki hvað hann vissi. Ég velti fyrir mér hvort hann þekkti söguna á bak við Júlíu nafnið og þátttöku mína í þessari barnabókaverðlaunasamkeppni, þar sem ég sendi inn handrit með dulnefni og rétt nafn höfundar var líka dulnefni (Júlía) , en ég hélt ekki að það væri á vitorði fleiri en þeirra sem stóðu að verðlaununum, því þetta olli auðvitað glundroða þegar rétt nafn vinningshafa var líka dulnefni. En svo kvaddi ég Ólaf Yrsumann án þess að fá almennilega niðurstöðu í hugleiðingum mínum.
3. Síðan tók ég mér stöðu í anddyrinu og ætlaði að taka af mér vetrarúlpuna því ég hafði farið í fína skyrtu í tilefni af þessari dagskrá. Ég gæti ekki tekið við verðlaunum í vetrarúlpu, hugsaði ég, ég yrði að koma fram í fínu skyrtunni minni. Skyrtan er svört og mér finnst einhver fínn glans á henni. En fatahengið hafði verið lagt undir veitingasölu svo ég hélt bara á úlpunni minni í fanginu, en mitt í þessum fatavandræðum mínum kom til mín Friðrik Rafnsson, sá mikli þýðandi – margverðlaunaður þýðandi – og við áttum skemmtilegt samtal (ásamt Palla Vals) um vin minn Michel Houellebecq. Í miðju samtali okkar skýst útgefandi minn hjá Forlaginu, Úa Matthíasdóttir, sú góða kona, framhjá okkur og kastar á mig kveðju. Hún brosti breitt. Hún minnti mig allt í einu aftur á tilvist bókarinnar minnar. Ég þurfti meira að segja að rifja upp titilinn; Rannsóknin á leyndarómum Eyðihússins. Kannski hef ég líka minnt hana á bókina mína, en hún staldraði ekki við heldur flýtti sér inn í salinn.

4. Við Palli fylgdumst að í humátt á eftir Úu, inn í salinn, til að finna okkur sæti. Þar heilsaði ég Lilju Sigurðardóttur, glæpasagnahöfundi og Bjarna Þorsteinssyni, Veraldarútgefanda sem gengu samhliða okkur inn.

5. Ég sá SJÓN bregða fyrir, en hann átti eftir að stýra umræðum um glæpasögur, síðar um kvöldið, sem hann gerði ansi vel. (Þátttakendur í því pallborði voru Lilja Sigurðardóttir, Óskar Guðmundsson, Yrsa Sigurðardóttir (í rauða kjólnum og tilbúin að fá yfir sig blóðsletturnar) og Ragnar Jónasson.) Einu sinni gaf ég SJÓN út á Íslandi og átti í töluverðum samskiptum við hann. Það er yfirleitt skemmtilegt að ræða við SJÓN, hann er vel að sér og getur verið áhugaverður samtalsfélagi. Ég gaf líka út bækur hans í Danmörku, en nú hef ég selt forlagið í Danmörku og hann fylgir fyrrum samstarfskonu minni, Charlotte Jørgensen, yfir á nýtt forlag. Ég veit ekki alveg hvort SJÓN sé eitthvað óánægður með eitthvað sem ég hef gert, það væri ekki ólíkt mér að hrasa á vegi mínum, en hann verkar frekar stuttur í spuna þegar við hittumst. Hverju það er að kenna veit ég ekki. En það getur nú verið misskilningur viðkvæms blóms; langlimaðs Íslendings.

6. Ég átti stutt samtal við Ragnar Jónasson, sem mér þótti koma mjög vel fyrir, eftir sjálfa verðlaunaafhendinguna, þar sem hann tilkynnti mér að hann hefði alls ekki vitað, (hann sat í dómnefndinni sem valdi verðlaunaþýðingarbókina) að Ásta S. Guðbjartsdóttir væri dulnefni. „Og það sýnir kannski hvað ég er illa að mér í innviðum íslensks bókmenntalífs …“ eins og hann sagði afsakandi.

Eftir dagskrána í gærkvöldi sem stóð til klukkan rúmlega tíu keyrði ég í gegnum hálfgerðan hríðarstorm aftur til Hvalfjarðar. Ég sá varla handa minna skil þegar ég brunaði í gegnum myrkrið undir Akrafjalli og inn Hvalfjörðinn. Snjórinn var orðinn þverhandardjúpur á veginum inni í Hvalfirðinum og ég virtist vera eini ökumaðurinn á ferð um þennan langa fjörð. Hvergi var ljós að sjá og aðeins ljóskeilan frá bílljósunum lýsti upp hríðarkófið í gegnum dimmuna. Mér þótti ég alíslenskur að keyra svona óttalaus í þessum erfiðu aðstæðum og ég vissi að leiðin upp að húsinu mínu – upp brattar, snjóþungar brekkur – yrði torfarin. En smábíllinn sem ég hef fengið að láni barðist í gegnum sjóinn og bar mig heilan heim.

Nú er morgunn þegar ég sit og skrifa þessa dagbók og klukkan er að verða tíu. Það er snjór yfir öllu hér í Hvalfirði, himininn er heiður og fjörðurinn er lygn. Á rúðunum eru frostkristallar og ég er nýbúinn að fá tölvupóst frá Spotify sem gerir upp ár mitt í tónlist. Niðurstaða þeirra er að ég hef mest hlustað á tónlistarmanninn Lara Lynn á árinu! Númer tvö er sjálf Rosemary Standley, númer þrjú er Chet Baker og númer 4. J.S. Bach.

Og hvað ætla ég svo að gera í dag? Ég verð að segja að ég fylltist nokkurri bjartsýni eftir að hafa hlustað á samræður íslensku glæpahöfundanna. Nú ætla ég mér, þegar ég hef lokið þessum dagbókarskrifum, að halda áfram að skrifa mína eigin bók – ekki glæpasögu – kannski verður hún svo góð að ég vinn verðlaun fyrir hana?!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.