
Ég undirbý mig undir brottför; vaknaði snemma og fór í sturtu, tók af rúmunum, setti notuð handklæði og rúmföt í hrúgu. Ristaði brauð, hellti upp á kaffi og fékk mér vatnsglas. Síðan stóð ég með vatnsglasið og hugsaði mig um. Ákvað eftir hina stuttu umhugsun að kveikja á tölvunni minni og athugaði tölvupósta. Las nýjustu fréttir á meðan ég borðaði morgunmatinn minn. Hér er algjör þögn fyrir utan nauðið í vindinum og allt um kring er niðamyrkur. Nú er klukkan bara 6:25. Þótt flugvélin sem ég á sæti í fljúgi ekki fyrr en klukkan fjögur er ég í brottfarargír.
(Bein lýsing: Skyndilega heyrist pling í tölvunni minni: nýr tölvupóstur frá Sjóvá sem minnir mig á að á föstudögum er afgreiðslutíminn hjá þeim hálftíma styttri en aðra daga. Þetta er erindið sem heimurinn á við mig þessa stundina.)
Ég las í gær og í nótt bók Pierre Lemaitre sem heitir Alex og er glæpasaga. Ég valdi að lesa afbragðsgóða, íslenska þýðingu Friðriks Rafnssonar þar sem ég var minntur á þennan höfund í samtali mínu við þýðandann á glæpahátíðinni Icelandic Noir. Það sem vakti athygli mína var frásögn Friðriks af fundum þeirra Pierre. „Það var einstaklega gaman að hitta hann,“ sagði Friðrik, „því að hann var svo innilega glaður yfir velgengninni sem hann naut. Hann fékk fyrst útgefna bók þegar hann var 55 ára, og síðan vann hann virtustu verðlaun Frakka Goncourtverðlaunin. Hann var óvenju glaður höfundur.“
Ég tengdi við þetta – ekki að vinna Gongourt-verðlaunin – heldur að byrja seint að skrifa bækur og vera innilega glaður yfir þeim litlu sigrum sem því getur fylgt.
En þetta samtal um Pierre Lemaitre áttum við á Icelandic Noir hátíðinni i Iðnó á miðvikudagskvöld, en það var einmitt hátíðin og verðlaunaveitingin sem hátíðin stóð fyrir sem dró mig hingað til Íslands. Mér finnst alltaf gaman að koma til Íslands og veran hér í Hvalfirði þykir mér afbragð en samt er ég pínulítið hissa á að þessi verðlaun, besta þýdda glæpasagan, virðast ekki skipta neinu máli. Það vissi ég ekki. Ég sem varð svo glaður að hreppa verðlaunin. Enginn – hvorki fjölmiðill né aðrir sem ég fylgist með – hefur sagt frá að bókin Hinn grunaði herra X hafi verið valin besta þýdda glæpasagan af sérfræðingum Icelandic Noir. Ekki einu sinni sjálf hátíðin nefnir þetta einu orði (ég fann facebooksíðu samtakanna). Og nú finnst mér svolítið asnalegt hvað ég varð glaður – fyrir mína hönd og bókarinnar – yfir svona veigalitlum verðlaunum og að hafa notað heila farþegaflugvél til að flytja mig hingað til að veita verðlaununum viðtöku.