Espergærde. Eftirtektarverðasta bók jólabókaflóðsins.

Mér áskotnuðust tvær bækur í flugvélinni á leiðinni til Danmerkur í gær. Fyrir einhverja undarlega tilviljun sátu Pétur Már útgefandi og Ragnheiður kona hans fyrir aftan mig í flugvélinni og þar sem ég kláraði bókina Alex eftir Pierre Lamaitre í háloftunum á miðri leið milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar var ég uppiskroppa með lesefni. En forleggjarafrúin hafði tvær bækur í farteskinu (þannig eru forleggjaramakar) sem hún taldi að ég gæti haft gaman af; Bók Dóra DNA, Kokáll og Hvíti dauði eftir Ragnar Jónasson.

Ég byrjaði að lesa Dóra DNA á leiðinni og ég verð að segja að bókin kom mér þægileg á óvart. Það er bæði kraftur, frumlegheit og færni í skrifum Halldórs Laxness jr. Hann er miklu betri en ég hafði haldið. Eða að minnsta kosti er fyrsti helmigur bókarinnar (sá hluti sem ég hef lesið) góður. En bók Ragnars Jónasson bíður betri tíma. Fyrst klára ég Kokkál.

Það er ein bók sem fær furðulega litla athygli á Íslandi og væri það stórslys ef sú bók fengi ekki íslenska lesendur. Að mínu mati er þetta ein áhrifaríkasta bók sem ég hef lesið … og bókin heitir Menntuð eftir Tara Westover. Þetta er aldeilis mögnuð lesning og ég ætti erfitt með að fyrirgefa íslenskum lesendum ef þeir hunsuðu þessa bók. Að minnsta kosti fer fólk mikils á mis ef bókin er látin safna ryki á bókalager forlagsins.

Kannski bók ársins í jólabókaflóðinu íslenska.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.