Espergærde. Kindarlegur. Kindarlegri. Kindarlegastur.

Ég mætti félaga mínum, manninum með hundinn, í morgunmyrkrinu á leið til vinnu. Nú rignir og ekki léttir það dimmuna sem er svo þykk að maður þarf sveðju til að brjótast í gegnum hana. Á horni Søbækvej og Bakkegårdsvej sé ég grilla í mann á hraðri göngu upp brekkuna. Ég greindi auðvitað ekki hver þarna var á ferð og rauninni velti ég því ekki fyrir mér hver það var sem hjó sér þarna leið í gegnum morgundrungann. Það var ekki fyrr en maðurinn nálgaðist og ég sá móta fyrir kaffibolla í hönd göngumanns að ég uppgötvaði að þarna var félagi minn á ferð. Gönguferðir hans eru alltaf í fylgd kaffibolla.

„Nei, hva, ertu úti að ganga svo snemma morguns, löngu fyrir dögun?“ sagði ég.
„Já, fylgdu mér. Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins …“ Hann þagnaði eitt andartak og leit hálfsposkur á mig. „Nei, annars þú skalt ekki fylgja mér. Ég er bullandi þunglyndur þessa daga. Ég geng hér upp eftir … sjáumst.“ Og svo var hann horfinn þessi ágæti maður.

Ég gekk því áfram, einn, en ég hefði alveg getað hugsað mér að fá göngufélaga eftir veginum að skrifstofunni. Og úr því ég var einsamall á ferð hugsaði ég: Veröldina sem við lifum í sköpum við sjálf, hvert og eitt, vefum heiminn á hinum stóra vefstól þar sem allt sem okkur berst til eyrna og augna (samræður, kvikmyndir, bækur) myndar þennan mikla vef sem heimurinn er í huga okkar. (Vel hugsað!) Ef eitthvað gerist sem enginn talar um eða skrifar um, hættir það að vera til og hverfur; er ekki lengur hluti af heiminum. (Stórvel hugsað, Snæi minn.)

Ég segi frá þessu hér þar sem mér áskotnuðust um daginn nokkuð merkileg verðlaun sem eiginlega eru hætt að vera til; eru strax gleymd og horfin. Glæpasagan Hinn grunaði Herra X eftir Keigo Higashino var valin besta þýdda glæpasagan af Icelandic Noir samtökunum (dómnefnd skipuðu Katrín Jakobsd. Kolbrún Bergþórsd. og Ragnar Jónass.) . Ég sem þýðandi bókarinnar var sérlega stoltur að hljóta þessi verðlaun og gerði sérstaka ferð til Íslands (sem Bjartur útgefandi bókarinnar borgaði fyrir) til að veita verðlaununum viðtöku. Á Icelandic Noir-samkomunni sem var haldin í Iðnó í síðustu viku fékk ég afhentan glerskúlptúr sem heiðursvott fyrir þýðinguna, þar var nafn mitt áritað á skjöld sem handhafi Icelandic Noir-verðlaunanna. Nafn hinnar þýddu bókar var einnig grafið í skjöldinn. Svona gripir eru nær aldrei neitt augnayndi og þegar ég kom til Danmerkur með verðlaunagripinn hló fjölskylda mín dátt. „Fórstu alla leið til Íslands til að ná í þetta?“

Ég set ekki verðlaunagripi til sýnis upp í hillur. Öll þau verðlaun sem ég hef hlotið fyrir fótbolta og handbolta eru fyrir löngu týnd. Þó á ég enn verðlaun sem ég hlaut einu sinni á Degi íslenskrar tungu, árið 2006. Það var líka skúlptúr sem nú er notaður sem hurðarstoppari á heimili mínu. Í gær lét ég glerskúlptúrinn frá Icelandic Noir ofan í skúffu. Enginn hefur minnst á þessi verðlaun, hvorki Icelandic Noir-samtökin sjálf á sínum miðlum né aðrir opinberir aðilar. Um leið og ég lét glerverðlaunagripinn hverfa niður í þessa safnhirslu – þaðan á hann sennilega ekki afturkvæmt – er eins og þessi verðlaun hafi aldrei verið veitt, þau hafi aldrei verið til. Ég verð hálf kindarlegur (lo.) yfir þessum verðlaunum, mér finnst hálfkindarlegt (lo.) að hafa ferðast með heilli farþegaflugvél (CO2!!) til Íslands og aftur til baka út af þessu verðlaunatilefni, sérstaklega af því að ég hafði verið svo stoltur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.