Espergærde. Endurkoma týnda sonarins.

Líf rithöfundarins er hrein rússíbanareið. Ég skynja það á eigin sálarlífi og ég hef skynjað það í mörg herrans ár á þeim rithöfundum sem að ég þekki. Það er vegna þessarar bókar sem ég fékk útgefna; bókin kom út og höfundinum, mér, leið eins og ég væri endurheimtur þjóðarinnar týndi sonur. Öll þessi athygli, maður minn! Smám saman, eftir því sem tíminn leið, dofnaði sigurvíman sem hafði runnið bæði á hina íslensku þjóð og mig sjálfan, hinn nýbakaða bókarhöfund. Bókin hvarf í skuggann og höfundinum fór að þykja eins og verkið væri umlukið gífurlegri og þrúgandi þögn. Allir dómar höfðu birst, öll viðtöl voru prentuð og send út og ekkert var eftir nema að bíða þess að bókin – sem ég hafði á tilfinningunni að væri alveg hætt að seljast – öðlaðist nýtt líf á bókamörkuðum framtíðarinnar.

En svo gerðist það í gærkvöldi; að hinn endurheimti og aftur gleymdi sonur þjóðarinnar var enn á ný dreginn fram í sviðsljósið. Í sjónvarpsþætti sem sýndur er á RÚV, Kiljan, fluttu Kolbrún Bergþórsdóttir og Sverrir Norland lítinn lofsöng um bókina fyrir framan stjórnanda þáttarins hins krulluhærða Egil Helgasonar. Ég svelgdi í mig lofið, eins og hellt væri upp í mig hunangi, ég sleikti út um þegar orð eins og frásagnargleði, leikur og undurfalleg skrif voru nefnd. Ég var alsæll, nú var ég á leið upp í hæstu hæðir eftir hina djúpu dýfu. Ég hallaði mér aftur í mjúkan hægindastól og malaði eins og köttur þegar skilaboð komu frá bróður mínum – sem passar að ég fái allar góðar fréttir frá heimaslóðum – um að bókin mín hefði lent á verðlaunalista samtaka bókabúða. Þau höfðu sett bókina mína í þriðja sæti yfir bestu barnabækur ársins, á eftir bókunum um hinar þjóðfrægu persónur: Vigdísi og Kjarval.

Kvöldið gat ekki verið betra og í morgun þegar ég vaknaði smjattaði ég á leifum hunangsins sem enn var í munnvikunum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.