Espergærde. Reiðihróp vonsvikins manns? – Dauði Bítlanna.

Í dag er föstudagur og sá 13. desember. Svartur dagur segja sumir en ég finn ekki fyrir neinu sem gæti minnt á myrkur eða drunga þar sem ég sit hér og horfi út um gluggann á skrifstofunni – ég get upplýst að bíllinn sem blasir við mér og skyggir á allt útsýni er af gerðinni Citroën.

Einu sinni skrifaði ég hér á Kaktusinn dagbókarfærslu þar sem ég brást til varnar fyrir ungan ljóðagagnrýnanda, Braga Pál Sigurðsson. Hann hafði þá farið nokkuð óblíðum orðum um ljóðabók sem heitir Skýjafar og fékk sem þakkir ægilegt skítkast frá öðrum rithöfundi sem kunni ekki við ljóðadóminn. Mér ofbauð orðfærið sem ausið (orðaleikur, yo!) var yfir Braga Pál Sigurðsson og fannst rétt að fólk talaði fallega, jafnvel þótt það væri ósammála. Ég hef að minnsta kosti alltaf kennt börnum mínum að vera kurteis – nota ekki grófyrði til að særa – það sé eina leiðin til að hlustað sé á mann.

En nú er svo komið að mér finnst ég þurfi að benda þessum sama Braga, Braga Páli Sigurðssyni, að vera ekki með sorakjaft. Bragi Páll mun víst hafa gefið út bókina Austur í haust. Bókin hefur því miður, fyrir skáldið, ekki hlotið þá athygli sem höfundurinn hefur vafalaust vonast eftir. Austur hefur alveg horfið á kaf í jólabókaflóðinu; á svo mikið bólakaf að fáir koma auga á hana. Kannski hafa vonbrigðin vegna þessa fálætis bókmenntaþjóðarinnar orsakað það að hann valdi að halda nýlega ræðu á Austurvelli fyrir samherja sína sem var full af óþarfa grófyrðum sem einungis eru sögð til að hossa sjálfum sér og eigin skoðanabræðrum, en eru auðvitað afgreidd af þeim sem orðunum er beint til, sem hreinn óhróður og ekki verð að hlusta á. (löng setning, yo!) Eiginlega fannst mér ræðan ekki gagnrýni heldur útrás fyrir neikvæðar tilfinningar; um leið og ræðumaður hellir úr skálum vonbrigða sinna og reiði, reynir hann af öllum mætti að særa andstæðinga sína með allskonar persónulegum svívirðingum. Ég segi í allri auðmýkt að ég held að maður nái ekki langt með slíku tali. Skoðanaandstæðingar sem tala svona hver við annan geta aldrei náð góðri sameiginlegri lausn á vanda þjóðar.

En mér fer illa að tala um pólitík. Ég kann ekki að tala um pólitík. Ég vildi bara benda Braga Páli og öðrum á að tala fallega. Ég held að það sé vænlegra til árangurs. Ekki viljum við ala á hatri, nóg er af slíku í heiminum og leiðir aldrei til annars en hins ljóta og vonda. En ef það er meginmarkmið Braga Páls að fá klapp frá samherjum sínum, þá er stóryrði oft leiðin til hins eftirsótta hróss, LIKES, og klapps á bakið. En er það markmiðið með þessari ræðu á Austurvelli að sá fræjum haturs og uppskera sjálfur hrósið sem hefur svo sárlega vantað?

Bókmenntamoli: Lærisveinar Jesú voru 12, hann var sá 13. í hópnum og hann dó – og krossfestur á föstudegi. Er þetta upphafið að þessari vondu áru sem föstudagurinn þrettándi hefur í vitund fólks?

Er það rétt sem ég heyri að Bítlarnir hafi leyst upp hljómsveit sína á föstudegi, á þrettánda degi mánaðar?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.