Espergærde. Það er sannleikur á allra vitorði að einhleypur eignamaður hlýtur að vilja eiginkonu.

Mér verður stundum hugsað til skáldsögu – sem ég las um en hef aldrei lesið – en hún mun vera 1083 innbundnar blaðsíður að lengd og innihelda eina setningu, eina samhangandi setningu, sem endar í punkti á blaðsíðu 1083 fyrir aftan síðasta orðið sem, eins og öll önnur orð í þessari bók, koma frá huga miðaldra konu. (Hér set ég punkt til að byrja nýja setningu.) Þetta er hugarstraumur miðaldra konu prentaður á pappír.

Ég segi frá þessu hér því stundum er þessi dagbók sem ég held, Kaktusinn, ósjálfráður hugarstraumur miðaldra karlmanns, stundum alóritskoðaður. Þegar ég er í því stuði læt fingurna dansa á lyklaborðinu í takti við þá púlsa sem koma frá heilanum. Frá mínum öfluga heila (Yo!) koma stundum punkta-púlsar, sem marka endalok setningar, en frá heila konunnar sem skrifaði bókina sem ég hugsa stundum um, barst bara einn punktur, lokapunktur. Nú man ég ekki hvað bókin heitir og því stoppa ég skrif mín eitt augnablik til að fletta upp á nafni bókarinnar. (Augnablik líður). Já, bókin heitir DucksNewburyport og er eftir Lucy Ellman (sem er aðeins meira en miðaldra en sjálfur sögumaður bókarinnar hennar). Bókin var tilnefnd til Bookerverðlaunanna og þykir af mörgum mjög mögnuð. Ég ætla ekki að lesa hana, hún vekur ekki áhuga minn, mér finnst slíkur setningaveggur sem tekur 1083 síður ókleyfur.

Annars hef ég ekki skrifað dagbók í tvo daga, hvorki laugardag né sunnudag, sem mér finnst skammarlegt. Ég finn mér bara stundum ekki tíma um helgar til að setjast niður til að festa heilapúlsa mína á blað – ég sem ætti að hafa meiri tíma um helgar. Tíminn fer í að tala við fólk, mitt fólk og annað fólk.

Bókmenntamoli. Í dag, þann 16. desember, árið 1775 fæddist hvorki meira né minna en Jane Austin, skáldkonan. Svo liðu árin. Árið 1797, í nóvember þegar Jane Austin var 22 ára gömul, sendi presturinn George Austin skáldsöguhandrit dóttur sinnar, Jane, til hins þekkta útgáfufyrirtækis Cadell & Davies.  Ekki leið svo óralangur tími þar til George fékk svar frá forleggjaranum Thomas Cadell, skrifað á fremstu síðu handritsins: „Sent til baka með pósti. Þar með hafnað.“ Handritið að skáldsögunni Hroki og hleypidómar lá eftir þessi fyrstu viðbrögð heimsins óhreyft á skrifborði Jane Austin í 16 ár eða fram til ársins 1813 þegar bókin kom fyrst út. 

Bókin hefst á þessari tóngefandi setningu: “It is a truth universally acknowledged, that a single man in possession of a good fortune, must be in want of a wife.” Nú er ég ekki með íslensku útgáfuna hérna við hlið mér en ég er viss um að Silja Aðalsteinsdóttir hafi þýtt þessa setningu glæsilega. Ég treysti mér ekki til þess að þýða sjálfur á þessari stund dagsins þegar ekkert annað blasir við mér í gegnum útsýnisrúðu skrifstofunnar en rauður sendibíll af gerðinni Citroën.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.