Espergærde. Sjálfskipuð útlegð.

17. desember í dag, mikill merkisdagur og stutt í jól og stutt í að ég fljúgi enn á ný til Íslands. Ég kem ekki í erindum bókarhöfundar eins og í síðustu tvö skiptin – ég á engin slík erindi til Íslands – heldur ætlum við að halda jól á Íslandi í fyrsta sinn síðan við fluttum til Danmerkur. Og nú eru 13 ár að baki með jólhald í útlöndum; og hér með er hinni sjálfskipuðu útlegð lokið.

Ég hef nokkuð verið að vandræðast með hugsanir mínar í kringum útgáfu bókar sem ég skrifaði, barnabók sem kom út í október. Ég hef ekki getað, og ég vil heldur ekki taka þátt í sjálfshólskapphlaupinu sem ríkir í kringum bækur. Mér finnst það bæði neyðarlegt og hálfniðurlægjandi að hampa minni eigin bók. Nóg þótti mér um þegar ég neyddist til að setja ritdóma um bókina á facebook. En samt finnst mér leitt að það ríki djúp þögn í kringum bókina sem ég skrifaði. Ég hafði vonast eftir meira stuði. Ég er auðvitað í útlöndum og veit ekki alveg hvað gerist á Íslandi en ég hef sterklega á tilfinningunni að nákvæmlega ekkert sé að gerast. Það hvarflar meira að segja að mér að forlagið sjálft, útgáfufyrirtækið sem gaf út bókina, hafi líka gleymt henni. Svona getur manni liðið sem bókarhöfundi. Þetta er hin svokallaða höfundarveiki.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.