Espergærde. Sísölubækur

Í gær skrifaði ég – í aukasetningu – hvað ég teldi að höfuðborg Íslands, Reykjavík, vantaði sárlega.
Bókabúð. En ekki bara bókabúð.
Bókabúð með sál.
Þetta skrifaði ég vegna þess að ég álpaðist inn í bókabúðina hér í Espergærde til að kaupa bók. En, eins og svo oft áður þegar ég kem inn í þessar sálarlausu keðjubókabúðir var bókin, sem mig vantaði og ég þráði svo heitt að fá, ekki til. Þetta skrifaði ég í gær og viti menn hingað í tölvupósti bárust nokkur hvatningarhróp um að að opna hina gleðiríku, örvandi og sálarupplyftandi bókabúð í Reykjavík. Nokkrir buðu fram krafta sína. Einn bauðst til að leggja fram peninga þegar í stað. Eins kom tilboð um ókeypis þrif, ókeypis húsnæði, tilboð um stuðningsþátttöku og ég veit ekki hvað. Kannski verður þessi hugmynd að veruleika?

Í suðvestur Skotlandi er bærinn Wigtown. Þar er íbúafjöldinn eitt þúsund manns og þar eru fimmtán bókabúðir. Ein þeirra er bókabúðin Open Books og þar geta þeir sem eru áhugasamir um að reka bókabúð leigt bókabúðina í eina viku í senn og séð um reksturinn. Lítil íbúð fylgir og kostar 400 pund að leigja bókabúðina og íbúðina sem fylgir. Það virðist vera draumur svo margra að reka bókabúð að uppselt er hjá Open Books alveg fram til lok árs 2023. Höfuðpaur þessa litla bæjar er bóksalinn Shaun Bythell sem varð heimsþekktur fyrir að skrifaði bókina The Diary of a Bookseller (Dagbók bóksalans). Hann er kallaður The King af bæjarbúum. Bókin hans Dagbók bóksalans hefur fengið statusinn sísölubók sem er enn betra en metsölubók – það veit fyrrum útgefandi að sísölubækur eru þær bækur sem gefa forleggjara sínum mesta gleði.) Og nú hefur Hollywood ákveðið að búa til kvikmynd byggða á dagbók bóksalans – það veitir kannski buddu bóksalans enn meiri gleði,

Í gærdag bárust mér líka önnur skilaboð. Þau voru frá sjö ára nemanda í skóla í Reykjavík sem sagði mér frá því að bókin sem ég hafði skrifað Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins væri komin á bókasafn skólans. Þar væri að vísu bara eitt eintak og strákur í 4 bekk, Óðinn, hefði verið fyrstur til að taka bókina að láni og nú væri langur biðlisti. Eins vildi þessi sjö ára nemandi spyrjast fyrir um það hvernig stæði á því að ég hefði ekki komið að lesa í skólanum þar sem ég væri verðlaunahöfundur, en til skólans hefðu margir höfundar – sem enginn verðlaun hefðu hlotið – komið og lesið fyrir nemendur skólans. Væri ekki ráð að bæta úr þessu? Þetta þótti mér skemmtilegt bréf.

ps. nú er ferð okkar til Íslands á morgun í hættu vegna þess að Númi er enn veikur og er kominn í meðferð á spítalanum í Hillerød.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.