Espergære. Íslandsför frestað.

Ég hafði reiknað með að vera að leggja af stað til Kastrup á þessari stundu, til móts við flugvélina sem flýgur til Íslands klukkan eitt, en af því verður ekki. Engin Íslandsferð í dag. Númi er enn veikur og ég get ekki farið af stað á meðan ástandið er svona á honum. Hann hefur verið lagður inn á sjúkrahúsið í Hillerød og læknar á spítalanum reyna að gera það sem þeir geta til að hjálpa honum.

Annars er mér nú efst í huga þakklæti fyrir þetta ótrúlega heilbrigðiskerfi sem maður hefur aðgang að – einn af fáum í heiminum. Þvílík gæfa. Við lifum í Paradís, þótt stunum mætti halda að þegnar vestrænna velmegunarríkja búi í Helvíti, miðað við hvernig þeir láta. Öll þessi óánægja, kvartanir, kvein, mótmæli og læti. Allra augu beinast að eigin réttindum en kannski gleymast stundum þær skyldur sem maður hefur gagnvart samborgurum sínum og samfélaginu öllu. Jæja, nóg um það. Stjórnmál henta mér ekki. En ég er ánægður með þann aðbúnað sem ég nýt hér í mínum heimshluta.

Ég las stutta grein í gær eftir líbanska (? ég veit ekki hvaða landi hann telur sig tilheyra, það er flókið mál) rithöfundinn Rabih Alameddine þar sem hann velur nokkrar af þeim skrýtnustu bókum sem hann hefur lesið í ár. Er það mótsvar hans við þeim endalausu „best of“ listum sem tröllríða öllu nú síðustu daga fyrir áramót (mér þykja þeir skemmtilegir). Meðal þeirra bóka sem honum þótti hvað skrýtnastar (ég get næstum ekki ákveðið mig hvort ég skrifa með einföldu eða tvöföldu i-i) er bók nýbakaðs Nóbelsverðlaunahöfundar Olgu Tocarczuk Drive Your Plow over the Bones of the Dead en það vill svo skemmtilega til að ég er einmitt að lesa þessa bók. Mér finnst hún ekki svo skrýtin, en flott er hún, enda tekur Rabih fram að þetta sé sú bók sem hann haldi mest upp á af öllum þeim bókum sem hann hafi lesið í ár. (Í þessari efnisgrein eru margir svigar, ég veit ekki hvaðan þessi svigaárátta kemur.)

ps. ég heyrði að Kristján B. Jónasson ætli að flytja á RÁS 1 – útvarpsrásinni – þátt um Peter Handke. Kristján hefur undanfarnar vikur sökkt sér ofan í höfundarverk Peter Handke, líf hans og umdeildar skoðanir – eða ekki skoðanir, því rithöfundurinn hefur lýst því yfir að hann fyrirlíti skoðanir. Ég hlakka mikið til að hlusta á Kristján B., sem getur bæði verið snjall, áhugverður og mælskur. Þátturinn mun vera á dagskrá þann 1. janúar 2020.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.