Espergærde. Jólagjöf ársins.

Í nótt lá ég vakandi og hugsaði göfugar hugsanir, eða það fannst mér. Ég vildi hitt og þetta í framtíðinni og allt var það göfugt í mínum huga. Svo sofnaði ég loksins og í morgun þegar ég vaknaði man ég ekki hvað það var sem ég ætlaði mér, bara að það var göfugt.

Þótt í dag sé sunnudagur drakk ég morgunkaffið einn. Sus fór snemma í morgun á sjúkrahúsið að heimsækja Núma sem þar liggur og hér er ég, heima hjá Davíð sem sefur eins og aðrir unglingar á sunnudagsmorgni. Af einhverjum ástæðum fór ég, yfir mínum kalda hafragraut, að rifja upp ferðalag sem ég fór fyrir nokkrum árum til borgarinnar Porto í Portúgal.

Í Porto er fræg bókabúð Lello e Irmão. Hún er aðallega fræg fyrir fegurð sína (sjá mynd). Nú er þessi bókabúð orðinn mikil ferðamannasegull og er hún troðfull af ferðamönnum dag hvern og færri kaupa bækur en bara koma inn til að glápa.

Bókabúðin Lello e Irmão krefst aðgangseyris. 100 ikr kostar að koma inn í þessa fallegu bókabýð.

Ég minnst á þessa bókabúð hér þar sem ég heyrði að nokkrar af bókabúðum heimsins eru farnar að lifa af því að taka aðgangseyri. Það kostar til dæmis nú 100 ikr inn í bókabúðina í Porto. Önnur fræg bókabúð í Tókýó heitir Bukitsu þar greiðir maður 1800 krónur fyrir að koma inn en fær þar á móti frítt kaffi og te og leyfi til að sitja, lesa og vinna. Hér í Danmörku eru bókabúðir sem eru einskonar blanda af bóksölu og kaffihúsi orðnar vinsælar. Brøg Litteraturbar og Café Pyt hafa náð fótfestu.

Nú eru að koma jól, fæðingarhátíð frelsarans eins og jólin voru einu sinni kölluð. Ég óska einnar jólagjafar og það er hvorki Pepsi Max né lakkríspípa. Stundum skil ég nefnilega ekkert, mér líður illa yfir hinu tvöfalda siðferði, mér finnst það óbærilegt og ég vildi að ég sjálfur væri heilagur maður sem ekkert haggaði; hvorki ljótleiki, heimska, fals né grimmd. Öllu væri fagnað með umburðarlyndi hins hreina hjarta. Mætti ég óska þess í jólagjöf, hins hreina hjarta.

ps. ég las viðtal Kristínar Ómarsdóttur við Bergljótu Snæbjörnsdóttur í vefútgáfu Stundarinnar. Það kom mér á óvart hve Kristínu Ómarsdóttur var tíðrætt um Guð. Þessi áhersla Kristínar á Guðstalið gerði mig örlítið ráðvilltan; hafði Kristín einlægan og heiðarlegan áhuga á Guði, eða var eitthvað annað sem stjórnaði þessu Guðs-tali hennar?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.