Espergærde. Eiginleikar

Á göngu minni milli kornakrana – sem nú eru vaxnir einhverju grænu sem ég veit ekki hvað er – mætti ég fólk á göngu. Ég er ekki vanur að mæta fólki á þessari gönguleið. En í morgun, sennilega vegna jólahátíðarinnar, var nánast hægt að tala um fjöldagöngu. Ég var ekki í stuði til að heilsa ókunnugu fólki og því horfði ég niður fyrir mig og stefndi út á stíg í skóginum þar sem ég bjóst ekki við að hitta svo marga.

En áður en ég náði svo langt var klappað á öxlina á mér. „Den prisbelønnede forfatter!“ var sagt kankvíslega við eyrað á mér og ég sneri mér við og sá að þarna var kominn félagi minn með hundinn, en án hunds. „Ég get ekki montað mig af mörgu,“ sagði hann án formála. „En ég er rosalega góður að skipuleggja, láta allt smella saman á nákvæmlega fyrirfram ákveðnum tímapunkti. Í gær ákvað ég að jólamaturinn skyldi vera klukkan 18:30 og svo setti ég allt í gang og viti menn klukkan hálf sjö sátu allir við matarborðið og rjúkandi heitur maturinn stóð tilbúinn á borðinu. Þarna er ég bestur, þetta er minn styrkur.“ Hann horfði hróðugur á mig og ég sagði að þetta væri aldeilis vel af sér vikið. Þetta væri aðdáunarverður eiginleiki.

„Hvar liggur þinn styrkur?“ spurði hann svo.
„Ég er góður að bera, halda á þungum hlutum langar leiðir.“
„Ertu góður að bera?“
„Já, það er góður eiginleiki. Einfaldur og góður eiginleiki. Þetta er eiginlega það eina sem ég er góður í.“
„Já, það er rétt. Mikill kostur að vera góður til að bera.”

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.