Espergærde. „Gerðu það …“

Ég átti erindi til bóksalans hér í bænum á Þorláksmessu. Bókabúð Arnold Busck í Espergærde er bæði ljót og ósjarmerandi en þrátt fyrir það voru í búðinni margir viðskiptavinir og allt í einu báru fleiri en einn skilti á brjóstinu þar sem á stóð BÓKSALI. Mig vantaði bók frá litlu forlagi sem hafði augljóslega ekki haft áhuga eða getu eða rænu á að búa til e-bók. En ég komst fljótt að raun um að bókin var heldur ekki til í sínu fasta formi í bókabúðinni. Og á meðan ég stóð og velti fyrir mér hvernig ég skyldi bregðast við því; að ég fengi ekki þessa ákveðnu bók fyrir jól kom ung, lagleg og ljóshærð kona inn í búðina með nokkrum slætti.

Hún var fljót að finna BÓKSALA og sagðist vilja skipta bók sem hún hefði fengið í afmælisgjöf. Upp úr mjög fínum poka tók hún bók, sem nú tröllríður öllum heimsins metsölulistum (nema þeim íslenska) Where the Crawdads Sing (Þar sem krabbarnir syngja). Þetta var danska þýðingin.

„Ég vildi fá að skipta þessari bók, takk.“
BÓKSALINN leit á bókina og svo á ungu konuna og hristi svo höfuðið.
„Nei, þú mátt ekki skipta þessari bók.“
Unga konan horfði á bóksalann eins og hún væri ekki viss um að hún hefði heyrt rétt. „Fyrirgefðu, hvað sagðirðu?“
„Ég tek ekki við þessari bók, þú skalt halda henni.“
„Má ég ekki skipta bókinni, ég er með kvittun …“
„Það er alveg sama. Þú skalt ekki skipta þessari bók. Hún er bara svo ótrúlega góð að þú skalt lesa hana. Lestu hana! Ekki skipta henni …“

Ég fylgdist með þessum óvenjulegu viðskiptum og beið eiginlega eftir að BÓKSALINN legðist á hnén og grátbæði ungu konuna um að lesa bókina. Það var örvænting í rödd BÓKSALANS. Eftir stutta þögn þar sem þau tvö, viðskiptavinurinn ljóshærði og BÓKSALINN horfðust í augu, endurtók BÓKSALINN ósk sína. „Gerðu það hlustaðu á mig … Lestu hana! Ekki skipta henni …“

BÓKMENNTAMOLI: Og hvaða bók er þetta sem vekur þessa sjaldgæfu ástríðu hjá BÓKSALANUM í Espergærde? Where the Crawdads Sing er fyrsta bók hinnar sjötugu Delia Owens sem er dýrafræðingur og hefur eytt mestu af ævinni á meðal dýra í Ameríku og Afríku. Bókin hefur nú selst í 4,5 milljónum eintaka á ensku og er mest selda bók ársins 2019 í heiminum. Bókin hefur verið þýdd á 40 þjóðtungur. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.