Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman, hugsaði ég í gærkvöldi þegar ég lagðist saddur til svefns. Maður borðar of mikið þessa daga … og sefur of mikið. Í gær var ég ekki kominn á fætur fyrr en klukkan 8:30 og mér fannst ég hafa misst af hálfum deginum. Nú er nóg komið, hugsaði ég, á morgun vakna ég snemma og hætti að borða sælgæti.
Í gær fékk ég bréf frá manni sem ég kannast við frá dögum mínum á Íslandi. Bréfið bæði skemmti mér og gladdi. Hann vildi mér vel og skrifaði mér fallega en fyrst og fremst langaði hann að koma með ábendingar um þessa hér dagbók: Kaktusinn. Hann hafði nokkrar ágætar greiningar sem opnuðu augu mín. Hann hélt sjálfur dagbók (sem ekki er gerð opinber) og hann vildi deila hugleiðingum sínum um dagbókarskrif með mér. Mér fannst þetta auðvitað mjög áhugavert. „Ef þú finnur að þú hlífir fólki í skrifum þínum þá ertu á villigötum. Ef fólk vill að þú skrifir eitthvað fallegt um það á það bara að hegða sér betur.“
Þetta er auðvitað hressileg nálgun á dagbókarskrif en ég hef tamið mér að vera ekki að ögra fólki, hrella fólk eða vera með of mikla stríðni í garð fólks. Ég sé ekki ástæðu til að skrifa þannig að það gæti sært viðkvæmar sálir.