Nú er ég aftur einn í kotinu, sit við eldhúsborðið, hlusta á gamla hljómplötu, svefnlaus og vankaður. Sus og Davíð flugu til Íslands í morgun og Númi er aftur kominn á spítala eftir dramatíska nótt. En allt er á ný undir stjórn. Allir hafa það gott.
Okkur hafði verið sagt að nokkur hætta væri á að sárið í hálsinum á Núma eftir uppskurðinn mundi rifna upp og það mundi valda frekar svakalegri blæðingu og við vorum vel undirbúin af hjúkrunarfólki hvernig maður bregst við slíku og því var ekkert hik hér í nótt. Númi vaknaði við að munnurinn var fullur af blóð, hann vakti okkur Sus og hljóp inn á baðherbergi svo blóðið gusaðist í hvítan vaskinn; frekar svakaleg sjón. Sus var snögg að hringja á sjúkrabíllinn og við gáfum honum ísteninga til að reyna að stoppa blæðinguna.
Sjúkrabíllinn var kominn fimm mínútum síðar og Númi var keyrður á hendingskasti til neyðarmóttökunnar í Hillerød og ég á eftir í mínum bíl. Bílarnir tveir, guli sjúkrabíllinn og góði bíllinn minn þutu hljóðlaust eftir fáförnum og mjóum vegi í gegnum dimman skóg. Bláa birtan frá blikkljósum sjúkrabílsins varpað drungalegum annarsheimsbjarma inn í skóginn. Mér á hægri hönd sá ég, milli hárra og lauflausra trjánna, þrjá hesta sem litu upp og furðuðu sig á þessu bláa ljósi sem lýsti upp sviðið.
Það tók læknana í Hillerød ekki sérlega langan tíma að ná stjórn á blæðingunni, snör og ákveðin handtök. Númi var sallarólegur og eftir nákvæma skoðun var hann færður á legudeild til að vera undir eftirliti næsta sólarhringinn.
Sus var mjög hikandi að fara ferðina til Íslands í morgun og vildi helst hætta við og vera bara heima. Ég skildi hana vel, þetta er ekki sérstaklega skemmtileg staða til að fljúga af stað í. En ég benti henni á að hún geti ekkert gert, það hjálpar ekkert að hún sé hér, það er ekkert sem hún getur gert. Með henni og Davíð eru tvær danskar fjölskyldur sem hafa hlakkað til Íslandsferðarinnar með okkur. Það var því nokkur pressa á Sus að fara með. Ég passa upp á Núma og við vitum hvað á að gera ef eitthvað gerist. En það var erfið ákvörðun fyrr Sus að stíga upp í lestina til Kastrup. Ég þurfti nánast að ýta henni af stað.