Espergærde. 31.12.19

Lokadagur ársins, uppgjörsdagur ársins. Hvað var best og hvað var enn betra? Ég læt allt flakka hér í freudísku flæði.

Bók ársins: Nú þarf ég að hugsa. Það er engin ein bók sem kemur upp í hugann. Þótt ég hafi örugglega lesið fleiri en hundrað bækur í ár finnst mér ég ekki hafi lesið verulega eftirminnilega bók á þessu tímabili. Bók Guðrúnar Evu kemur upp í hugann, Aðferðir til að lifa af þótti mér góð. Bæði til gleði og undrunar þótti mér bók Braga Ólafssonar Sendiherrann stórskemmtileg. Ég hafði byrjað á henni fyrir nokkrum árum en gafst upp. En nú þegar ég las hana í ár var ég ansi hrifinn. Kannski varð ég þess vegna fyrir svo miklum vonbrigðum með nýju bókina hans Stöðu pundsins sem mér þótti ekki sérlega góð.
Plata ársins: Everyday Robot, Damon Albarn. Ég las nýlega um þessa plötu, setti hana á fóninn og nú fer hún varla af fóninum. Margt ansi gott finnst mér á þessari hljómplötu.
Músikuppgötvun ársins: Lera Lynn. Mjög flott tónlistarkona, frábært sound. Ég sá hana svo á tónleikum og það var ekkert slor.
Ferðalag ársins: Skíðaferðin til Japan um síðustu áramót.
Bjór ársins: Glitch frá Gamma Brewing Company
Atvik ársins: Þegar Forlagið reyndi að hafa samband við vinningshafa Íslensku barnabókverðlaunanna sem var ekki til. Höfundurinn var hugarspuni minn og hafði fengið tilbúið nafn. Þar hófst spaugileg atburðarrás.
Borg ársins: París. París. París. Boston, Boston, Boston
Listreynsla ársins: Ferðin á listasafnið í Beacon fyrir norðan New York. Sjaldan hef ég verið jafnuppnumin eftir listasýningu.
Tónleikar ársins: Jólaóratoría J.S. Bach flutt af af Sokkelund kórnum í Garnisons Kirke í Kaupmannahöfn.
Veitingastaður ársins: Francescana @ Maria Luigia fyrir utan Modena. Stórkostlegur staður.
Fundur ársins: Fundur okkar Hala í Hvalfirði í nóvember. Frábærlega skemmtilegt. Birti hér hópmynd Einars Fals af fundarmönnum í tilefni þessarar útnefningar.

Halar á fundi í nóvember. (ljósm. Einar Falur)


Vonbrigði ársins. Get ekki orðað þau.
Eftirminnilegasta atvik ársins: Að taka við verðlaunum fyrir barnabók sem ég skrifaði. Það gerðist að morgni dags á Seltjarnarnesi. Ég fann fyrir hinni fágætu skyndihamingjukennd. Eitt hamingjuaugnablik.
Morgunmatur ársins: Þótt mér þyki hafragrauturinn minn með ólífuolíu frá LaChiusa frábær, toppar ekkert morgunmatinn hjá Francescana @ Maria Luigia fyrir utan ítölsku borgina Modena.
Verkefni ársins: Að hafa klárað að byggja sumarhöll í Hvalfirði. Stórkostlega vel heppnuð bygging sem bæði veitir mér gleði og vonandi börnum mínum og vinum.
Söknuður ársins: Ég sakna að byggja eitthvað nýtt upp frá grunni. Eitthvað stórkostlega uppbyggilegt og stórbrotið.
Hugmynd ársins: Að byggja sumarhús í Hvalfirði
Áramótaheit ársins: Mér tókst að vinna gullverðlaun í ár eins og ég hafði ætlað mér síðasta ár. Meira að segja tvenn; barnabókaverðlaun og þýðingarverðlaun. 1) Árið 2020 ætla ég mér að reyna að vinna bókmenntaverðlaun. Það þætti mér gaman. 2) ég ætla að birta einn bókmenntamola á dag á Kaktus árið 2020. Lifi bókmenntirnar. Yo!
Dagbók ársins: Kaktusinn yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.