Espergærde. 100 inn og 113 út.

Undarlegasta gamlárskvöld lífs míns að baki. Ekki slæmt kvöld, alls ekki. Ég hef aldrei fyrr verið einn heima á þessum tímamótum. Ekki skorti mig tilboðin um að taka þátt í veisluhöldum, hingað komu sendiboðar í röðum til að bjóða mér í mat: Til Ole og Tine, til Lars og Pia og til Thomas og Anne D. Allir vorkenndu mér að vera einn, sem var alger óþarfi. Ég vild bara heldur vera einn heima en að fara í fjölskylduboð. Númi fór til vina sinna og borðaði með þeim en ég nennti ekki einu sinni að elda mat fyrir mig einan eins og ég hafði þó ráðgert. Ég var bara ekki svangur.

Hér hafði ég það fínt, hlustaði á tónlist (Damon Albarn, Everyday Robots var spilað í slaufu) og svo dúllaði mér bara við hitt og þetta. Horði á kvikmyndina A Marriage Story, sem er fín, Ég gleymdi að vísu að gera kvöldið hátíðlegt, sem er auðvitað ekki nógu gott. Það var ekki fyrr en Númi kom heim undir miðnætti að við settum hátíðarsvipinn upp. Gattuso heimiliskötturinn var viti sínu fjær af skelfingu. Allar þessar sprengingar áttu ekki við köttinn. En þetta var sem sagt hátíðarkvöldið.

Bókmenntamoli. Síðasta bók ársins. Sú bók var síðust að koma á íslenskan bókamarkað árið 2019 var nýtt verk eftir Ragnar Helga Ólafsson: Tveir leikþættir. Ritið kom í bókabúðir þann 20. desember og heyrst hefur að bókin hafi náði ekki fram á borð sumra bókabúða fyrir aðfangadag. Hingað til hefur verið gersamlega vonlaust að selja leikrit útgefin á prenti. Frú Emilía, leikhúsið, gaf út flest þekktustu verk leikbókmenntanna: Tsjekhov, Ibesn, Gorkí … en þau seldust ekki baun í bókabúðum. 100 eintök voru til dæmis sett á markað – í bókabúðir – af leikritinu Kirsuberjargarðurinn eftir Tsjekhov, en af einhverjum ókunnum ástæðum endursendu bókabúðirnar 113 stykki til baka með þeim skilaboðum að leikrit seldust ekki í bókabúðum. Það er örugglega rétt athugað hjá bóksölunum að ekki var sala í leikbókmenntunum, en engum tókst að skýra hvernig bókunum fjölgaði sér þá daga sem þær lágu til sölu á borðum bókabúðanna. Hvað um það; Ragnar Helgi og Tunglið ætla að reyna að freista íslensku áhugafólki um bókmenntir og leikþætti með nýju bókinni hans Ragnars Helga: Tveir leikþættir.

Leikþættir í boði Ragnars Helga Ólafssonar og Tunglsins

Annar leikþátturinn er ærslaleikur en hinn gamanstykki. Báðir eru þeir þó því miður með harmrænu ívafi. Tunglmenn segjast feta í fótspor Strindbergs sem líka gaf út leikþætti sem ekki höfðu verið settir á svið. Það var dúndrandi metsölubók.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.