Espergærde. Tímagöngin

„Áttu ekki regnföt, vinur?“ var ég einu sinni spurður þegar ég stóð illa klæddur úti í hellirigningu og virti fyrir mér tennisvellina hér í bænum fara á kaf í vatn. Þetta var aldraður, vinsamlegur maður sem spurði mig að þessu í hreinni góðsemd. Í morgun þegar ég settist yfir morgunkaffið (sjá mynd) varð mér skyndilega hugsað aftur til þessa manns. Ég hef enn ekki eignast regnföt þótt ég hafi eiginlega samþykkt, í samtali mínu við manninn, að það væri nauðsynlegt að klæðast hlífðarfatnaði í slíku regnveðri eins og fór yfir Espergærde þennan umrædda dag. Ég hef svo sem enga þörf fyrir að endurtaka samtalið við herramanninn en mér varð af einhverjum ástæðum hugsað til hans. Hvort ég á eftir að hitta hann aftur verður tíminn að leiða í ljós.

  1. Tíminn verður líka að leiða í ljós hversu marga vindla ég reyki á árinu 2020. Árið 2019 reykti ég ekki einn vindil þótt 1) ein af ánægjulegustu stundum ársins 2018 hafi verið með vindil út á bekk í maíblíðunni og 2) þótt ég sé að reyna að byrja að reykja. Það er því eiginlega óskiljanlegt að ég hafi ekki reykt vindil árið 2019.
  2. Ég sá eina leiksýningu árið 2019. Það var skelfileg reynsla. Að sjá leiðinlegar leiksýningar getur verið hrein martröð og þessi seta yfir þessu vonlausa leikhúsverki var martröð af verstu gerð. Ég keypti miða á aðra leiksýningu en mætti ekki í leikhúsið þótt ég væri einlæglega áhugasamur um að sjá leiksýninguna. Þetta var sýning Friðgeirs Einarssonar í Borgarleikhúsinu. Hvort ég eigi eftir að sjá leiksýningu á árinu 2020 verður tíminn að leiða í ljós.
  3. Þegar ég horfi fram í tímann sé ég fyrir mér landslag hulið snjó. Allt er hvítt. Ég veit ekki hvar þetta er, uppá jökli? Norður á Svalbarða? Þokuhulin skíðabrekka í Noregi? Ég veit ekki hvaðan þessi sýn kemur en það verður tíminn að leiða í ljós hvort einhvern tíma renni upp fyrir mér ljós.
  4. Ef ég læt mig dreyma um framtíðina koma upp myndar af Maldini, Pep og mér; okkur þremur. Við erum saman á björtum sumardegi upp í Ölpunum á verönd veitingahúss með rauðköflóttum dúkum. Það er Pep sem hefur orðið, við Maldini sitjum brosandi og hlustum. Ég er með hægriolnbogann á borðinu og læt hökuna hvíla í lófa hægri handar. Við erum í leynilegum erindagjörðum en það er létt yfir okkur, víð fíflumst og öllum líður vel inni í sjálfum sér. Þetta hefur Pep að orði: „Mér líður svo vel inni í sjálfum mér,“ segir Pep og sperrir augun á okkur tvo. Þótt hann segi þetta eins og staðhæfinu er líka spurning í orðunum; líður ykkur svona líka?
  5. Hugur minn er fullur af bókum, bæði þeim sem ég les, þeim sem ég hef áhuga á að lesa og þeim sem ég tel mig ætla að skrifa. Tekst mér líka í ár að skrifa og fá útgefna bók? Þessari spurningu varpa ég út í rýmið en það er tíminn sem svarar.
  6. Þegar ég horfi á mynd af Katrínu Jakobsdóttur finn ég fyrir samúð. Ég hef það á tilfinningunni að hún sé svo ærleg kona. Á myndinni sé ég bjartleita konu, bæði réttsýna og góðviljaða. Hennar vandi er að hún starfar í stjórnmálum. Verður hún forsætisráðherra að ári; þann 2. janúar 2021? Það verður tíminn að leiða í ljós.

Bókmenntamoli: HG Wells skrifaði árið 1895 skáldsöguna Tímavélina. Þetta var stutt saga og lýsti farartæki sem gerði farþegum sínum kleyft að ferðast um í tímanum; fram og til baka. Sagan hefur verið kveikjan að mörgum öðrum sögum og líka kvikmyndum og má segja að áhrif sögunnar hafi verið nokkuð víðtæk á bókmenntirnar. Ég er ekki bókmenntafræðingur en ég held að þetta sé rétt ályktað. hvað um það, bókin gersamlega umturnaði að minnsta koti lífi Ron Malletts. Og hann er orðinn 74 ára.

Þegar Ron, þessi ameríski eðlisfræðingur, var tíu ára missti hann pabba sinn sem alóvænt hné niður á gönguferð út í hjólabúð og dó. Hjartað gaf sig. Hann hafði verið mikill bókmenntaáhugamaður og áhugamaður um vísindi. Honum tókst að smita þessum áhuga til sonar síns. Árið 1957, ári eftir dauða föðurins, var Ron staddur í fornbókasölu í New York í leit að góðu lesefni og rekst á bók HG Wells The Time Machine. Ron varð gersamlega heillaður af sögunni og fékk bókstaflega á heilann að hann skyldi sjálfur finna upp tímavél svo hann geti ferðast aftur í tímann til að hitta pabba sinn.

„Bókin breytti lífi mínu,“ staðhæfði Ron í samtali. Nú er hann 74 ára og prófessor í eðlisfræði við háskólann í Conetticut og helgar sig rannsóknum á tímanum og möguleikanum á að búa til farartæki sem gerir ferðalög um tímann möguleg. Ron telur sig hafa fundið lausnina og hefur lagt fram stærðfræðiformúlu sem hann telur sýna fram á hvernig hægt er, með hjálp lasergeisla, að beygja tímann. Hann telur að, með því að senda gífurlega sterka lasergeisla inn í hringlaga ferli, geti myndast tímagöng. Með því að skríða inn í göngin sem hringferli lasergeislanna myndar geti maður ferðast aftur á bak í tímann.

Ekki eru allir sannfærðir um að þetta sé rétt hjá prófessor Ron en ég vona að hann geti flutt sjáfan sig í gegnum tímagöngin til fimmta áratugar síðustu aldar og hitt sjálfan sig, barnið, (getur maður hitt sjálfan sig?) og pabba sinn. En þetta verður tíminn að leiða í ljós.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.