Espergærde. Verðlaunaspurningar

Ég hlustaði á fínan útvarpsþátt í gær um Nóbesskáldið Peter Handke í umsjón Kristjáns B. Jónassonar. Þetta var vandaður útvarpsþáttur, umsjónarmaður vandaði til verka, þekkti viðfangsefni sitt vel og flutningur var fyrirtaksgóður. Ég gekk um gólf með headphones og hlustaði á útvarpið sem nam bylgjur sínar alla leið frá Efstaleiti í Reykjavík. Við Númi erum einir heima. Á meðan ég gekk um gólf og reyndi að gera tvennt í einu, hlusta og taka til, lá Númi í sófanum og las þykka bók eftir egypska höfundinn Alaa Al Aswany. Það er ekki svo oft sem hann les bækur.

Þegar ég gekk fram og til baka um stofuna með útvarpsþáttinn í eyrunum veifaði hann til mín og spurði: „Á hvað ertu að hlusta?“
„Íslenskan útvarpsþátt um Peter Handke.“
„Um hvern?“
„Peter Handke.“
„Hver er Peter Handke?“
„Veistu ekki hver Peter Handke er … ég splæsi hamborgara og shake ef þú getur svarað spurningunni. Hver er Peter Handke?“
„Er hann listamaður?“
„Já.“
„Rithöfundur?“
„Já,“ sagði ég og hló. Það var kannski ekki erfitt að geta sér til um það.
„Er þetta náunginn sem þið [hér vísar Númi til samtals okkar Sus] voruð að tala um … náunginn þarna með Milosovitc.“
„Já, en hvert er hans stærsta afrek, af hverju er hann svona mikið í umræðunni nú?“ spurði ég.
„Já … hérna … hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hann kemur frá Austurríki.“
Þarna græddi Númi hamborgara og shake.

Bókmenntamoli: Hér er spurt hver er Andrzej Sapkowski? (Sjá mynd) Verðlaun hamborgari og shake.

Skyndilega skýst þessi maður upp á stjörnuhiminninn hér í Danmörku svo hratt og á svo afgerandi hátt að hann á 9 söluhæstu bækur vikunnar. Númer 1, 2, 3, 4, 5, 7, 8, 9 og 10! Þetta er alveg satt! Ég vissi ekki hver þessi maður var þegar ég sá metsölulistann sem birtist í gær. Ég varð að fletta honum upp og í ljós kemur þetta er 71 árs árs gamall Pólverji, fæddur í Lotz og stundaði nám í viðskiptafræði í háskóla borgarinnar áður en hann réði sig sem sölufulltrúa í útflutningsfyrirtæki þar sem hann vann fram til ársins 1990. Það ár sendi hann inn smásögu, THE WITCHER, í fantasíusagnasamkeppni. Fyrir söguna fékk hann þriðju verðlaun en það varð nóg til að hann sneri sér að fantasíuskrifum, og fantasíubókmenntaþýðingum. Frá árinu 1990 hefur hann skrifað fjölda bóka innan fantasíugeirans og bækur hans eru þýddar á meira en 20 tungumál. Þrjátíu árum eftir útkomu THE WITCHER er Netflix byrjað að sýna samnefnda þáttaröð byggða á söguheimi Andrzej Sapkowskis og einmitt þetta; að Netflix sýni þættina THE WITCHER, hefur tendrað mikið vinsældabál í Danmörku og geri ég ráð fyrir að þessi vinsældabylgja verði brátt alþjóðleg.

Andrzej Sapkowski höfundur THE WITCHER.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.