Espergærde. Uppboð

Þessi vika hefur verið sérlega afkastalítil. Ég hef snúist í hringi í kringum sjálfan mig, byrjað á verkefni og svo á því næsta án þess að klára það fyrra … ég hoppa á milli eins og skopparabolti og kem engu í verk. Afleiðing þessa hringls er að ég verð enn órólegri. Þetta kallast vítahringur. En svona er það nú og eina ráðið við þessu er að herða sig upp og taka aftur völdin. Óróleikinn stafar sennilega af því að ég hef eiginlega verið hálflokaður inni og hef ekki komist í göngutúr. Ég get ekki hugsað mér að láta Núma vera einan heima þar sem hann er enn í þessari blæðingarhættu. Ég get ekki afborið þá tilhugsunin um að hann sé einn ef það færi að blæða. Það er alltof dramatískt.

Í gær byrjaði ég til dæmis á þremur bókum og kastaði þeim öllum frá mér, þar sem ég hafði ekki eirð í mér að sökkva mér ofan í söguheiminn. Óróleiki innipúkans.

Bókmenntamoli. Ég las það í gær að þýðing á nýrri bók hinnar vinsælu skáldkonu Ferrante væri væntanleg á hinn danska markað með vorinu. Það er töluverð eftirvænting hér í landi fyrir nýrri bók skáldkonunnar enda eru fá bókmenntaverk sem notið hafa jafn mikilla vinsælda á síðari árum. Ferrante sendi síðast bók frá sér árið 2014. Nýja bókin, sem kom út á Ítalíu þann 7. nóvember 2019, mun víst sverja sig mjög í ætt við bækur Napólíseríunnar; sögusviðið er Napólí og viðfangsefni er þekkt frá fyrri bókum: vinátta vinkvenna, fjölskyldubönd, stéttastaða … og götur Napólí. Titillinn:  La vita bugiarda degli adulti. (bein þýðing: Lygatilvera hinna fullorðnu.)

Mér bárust þær fréttir frá Íslandi í gær að nýja Ferrante bókin muni koma út í íslenskri þýðingu í byrjun júní. Bæði Bjartur og Benedikt hafa gefið út eldri bækur Ferrante en það er Bókaforlagið Benedikt sem hreppti útgáfuréttinn á nýju bókinni eftir uppboð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.