Espergærde. Saga um heppni, tilviljanir og milljónir í vasann.

Að fá nýjan kraft svo ég fljúgi upp á vængjum sem örn, að ég hlaupi án þess að lýjast, gangi og þreytist ekki. Þetta var nú mín heita ósk eftir ægilega eirðarlaust ráf í kringum sjálfan mig síðustu daga. Mér finnst ég ekki hafa komið neinu af viti í verk. En svo hófst ég á loft í gær.

Vinur minn útgefandinn hafði beðið mig um að hjálpa sér við að finna aðferðir til að selja bók sem hann hafði keypt þýðingarréttinn af fyrir nokkru. Hann hefur miklar væntingar um mögulega sölu; það er alltaf byrjunin og sennilega forsenda þess að geta selt bækur. Ég hef aldrei verið mikill markaðsrefur en ég hef verið heppinn og tekist að selja bækur með einhverri slembilukku.

En í gær lagðist ég í „rannsóknir“ á annarri bók sem er skólabókardæmi um hvernig heppni, markaðsvinna og söluherferðir geta leitt til þess að bók verði mest selda bók ársins. Bókin heitir The Silent Patient eftir Alex Michaelides. Nú á dögum eru til endalausar „Case Studies“ innan bókabransans. Það er einmitt til nokkrar slíkar rannsóknir á The Silent Patient sem eru athyglisverðar fyrir mann eins og mig sem hefur endalausan áhuga á gangverki bókamarkaðarins. Ég notaði allan daginn í gær til þess að liggja yfir þessu og hélt áfram þegar ég vaknaði í morgun. Og í dag sendi ég skýrslu til vinar míns. Ég hef ekki enn heyrt í honum.

Bókmenntamoli. Ég veit ekki hvaða forlag gefur út bókina The Silent Patient á Íslandi, einhver hlýtur að hafa keypt réttinn þar sem þýðingarrétturinn er seldur til 40 landa og kvikmyndarétturinn er keyptur af Brad Pitt hjá Plan B. En þessi bók, sem er ágæt, er svo frábært dæmi um hvað heppni hefur afgerandi áhrif á líf manna. Að skýra lífið með orsökum og afleiðingum hefur aldrei verið sérlega fullnægjandi. Öll þessi litlu og stóru atvik sem maður hefur enga stjórn á og ýta lífinu í hinar furðulegustu áttir.

Hér er dæmi. Alex Michaelides höfundur bókarinnar The Silent Patient hafði dreymt í mörg ár um að verða handritahöfundur og vinna í kvikmyndabransanum. Alex, sem ólst upp á Kýpur (pabbi hans er frá Kýpur og mamma frá Englandi) hafði skrifað nokkur kvikmyndahandrit og hafði ekki einu sinni fengið áheyrn hjá þeim sem kaupa handrit til kvikmyndaframleiðslu. Hann var alveg að gefast upp.

Sú minning hefur fylgt Alex lengi er frá sumri á Kýpur þegar hann fékk dellu fyrir að lesa Agöthu Christie. Hann var tólf ára, lá á ströndinni og las hverja bókina á fætur annarri. Þegar hann var búin með eina fór hann út í bókabúð og keypti næstu. Þetta er ein af hans sælustu minningum. Dag einn þrjátíu árum síðar var hann á gangi um götur London og hafði eiginlega ákveðið að gefast upp á handritaskrifum, í bili að minnsta kosti, þegar honum datt í hug að kannski ætti hann að prufa að skrifa bók, skáldsögu, glæpasögu í anda Agöthu. Hann þekkti verk hennar út og inn eftir að hafa lesið flestar bækur hennar og sumar oftar en einu sinni. (Ragnar Jónasson hefur svipaða sögu að segja, Agatha hafi verið lærimeistari hans.) Á þessum göngutúr fékk hann skyndilega hugmynd að sögu byggða á skapalóni Agötu og með algjörum Agöthu Christie endi. Hann hlammaði sér niður á bekk í nálægum garði og skrifaði plottið niður í símann sinn. Þetta var grindin að sögunni The Silent Patient. Alex á enn þessi skrif í símanum sínum og sjálf sagan hefur tekið litlum breytingum. Þetta var árið 2014.

Alex settist niður og skrifaði. Í þrjú ár puðaði hann við að koma sögunni á blað (hann vann fyrir sér við ýmis störf á meðan hann samdi bókina). Þegar hann taldi sig vera búinn að gera það sem hann gæti til að gera bókina góða fór hann yfir lista af umboðsmönnum og fyrir tilviljun ákvað hann að senda handritið fyrst á Sam Copland hjá Roger, Coleridge & White í London (sömu umboðsstofu og Bragi Ólafsson var einu sinni hjá).

Sam Copland var nýkominn frá bókamessunni í Frankfurt og hafði satt að segja fengið nóg af bókum í bili. Þetta var í október árið 2017. (Bókin kom út 5. febrúar 2019). En hann átti langa lestarferð fyrir höndum og ákvað að prenta út handrit sem barst í tölvupósti í þann mund sem hann var að yfirgefa skrifstofu sína. Handritið kom frá Alex Michaelides.

Lestarferðin var löng og Sam fór að lesa. Við lestur bókarinnar fékk Sam skyndilega þá flugu í höfuðið að sennilega væru fleiri að lesa og hann yrði að vera fljótur að lesa handritið. „Það var eins og ég hefði verið barinn í hausinn með sleggju. Ég varð bara allt í einu svo hræddur – án sérstakrar ástæðu – að ég væri að missa af einhverju ef ég flýtti mér ekki að klára.“ Á laugardegi hafði Sam Copland lesið handritið og sá að þetta væri ekki svo vitlaus saga og ákvað að hringja í Alex sem þá bjó í London þeir mæltu sér mót á mánudegi. Það fór vel á með þeim og á þriðjudegi höfðu þeir skrifað undir samning. Sam Copland yrði umborðsmaður Alex Michalides og sjá um að selja handritið hans til útgáfu. „Ég hef aldrei fyrr verið svo fljótur að gera samning. Þremur dögum eftir að mér berst handrit!“

Sama dag talaði Sam við félag sinn í Bandaríkjunum sem var nýbúinn að stofna bókaforlagið Celadon. (Forlagið er stofnað í september 2017 í samkrulli við stórforlagið Macmillan). Á þessu augnabliki höfðu þau hjá Celadon-útgáfunni ekki haft fengið nein handrit til að lesa (forlagið var nýtt og starfsmenn nýbúnir að koma sér fyrir á skrifstofum sínum.) . Sam sagðist hafa ágæta bók sem hann gæti sent þeim. Þetta var ástæða þess að öll þrjú á skrifstofunni sátu og lásu sömu bók: The Silent Patient, hvert á sinni skrifstofu. Það hefur ekki gerst aftur í sögu forlagsins að þrír hafa lesið sömu bók samtímis. „Það skapaðist góð stemmning á skrifstofunni. Við erum misfljót að lesa svo þeir sem voru komnir lengra voru með hróp og læti og við hin öskruðum til baka: „Don’t ruin it for me …“

Í þessari góðu stemmningu ákváðum við að senda „pre-empt“ fyrir bókina (það er bjóða háa fjárhæð fyrir handrit með því skilyrði að bókin yrði tekin út úr öllum uppboðum). Sam Copland tók tilboði Celadon og hóf forlagið þegar í stað að skipuleggja markaðsherferð sem réttlætti þá upphæð sem hefði verið greidd fyrir réttinn á bókinni (in the high six figures). Og boltinn fór að rúlla. Fréttir um sölu á bók eftir fyrstubókarhöfund með himinhárri fyrirframgreiðslu vekja alltaf athygli í bókaheiminum og þess vegna voru fleiri forleggjarar sem tóku eftir þessari bók. Því fleiri sem hoppa á vagninn og kaupa þýðingarréttinn því sterkari verður áhugi þeirra sem enn hafa ekki keypt. Svona stækkar snjóboltinn. Meira en 40 forleggjar víðs vegar um heiminn hafa nú keypt réttinn á bókinni sem var næst mest selda bók Bandaríkjanna árið 2019. Margar vikur á toppi New York TImes metsölulistans og milljónir bóka seldust. Nú situr Alex Michaelides og skrifar bók númer tvö.

En hvað varð til þess að bókin seldist svona vel í Bandaríkjunum og Englandi og víðar er viðfangsefni margra rannsókna og einmitt þessar rannsóknir hef ég lesið í gær og í dag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.