Espergærde. Sigurför og hægur dauði.

Fyrsti vinnudagur á skrifstofunni í langan tíma. Ég er sestur hérna aftur, búinn að setja bók vikunnar (Ugens bog) út í glugga. Á fóninum er Damon Albarn, íslandsvinurinn, en hann hefur ekki áður heyrst á skrifstofunni. Ég er sem sagt aftur farinn að vinna.

Bókmenntamoli. Sigurför hljóðbókarinnar heldur áfram og næsti viðkomustaður er Ísland. Stefán Hjörleifsson sem er forstöðumaður Storytel segir í frétt að alls hafi komið út um 400 ís­lensk­ar hljóðbæk­ur á síðasta ári sem er tæp­lega tvö­föld­un frá árinu 2018.

Í þessari sömu frétt sem ég las í mbl.is, segir Stefán að velta bóka­út­gáfu hafi aukist um 20% milli ára og megi veltuaukn­ingu að mestu þakka hljóðbókaútgáfu. Hann bætir svo við að „hljóðbæk­ur eru nú um 15% af heild­ar­markaði ís­lenskr­ar bóka­út­gáfu ef miðað er við veltu.“ Ekki veit ég hvaðan hann hefur þessar tölur en ég verð að efast um að þarna fari þessi góði maður með alveg rétt mál. Samkvæmt nýjustu fréttum frá íslenskum bókaforlögum er frekar búist við samdrætti í bóksölu árið 2019 en aukningu. Uppgjör frá stórmörkuðum og bókabúðakeðjum eru ekki komin og verða endanlegar tölur ekki tiltækar fyrr en í lok febrúar. Því miður held ég að bókaáhugamenn geti ekki fagnað framgangi bóksölu í ár.

Mín spá er sú að á meðan lífleg og lifandi umræða um bókmenntir, bóksölu, bókaútgáfu, störf rithöfunda, hugmyndir rithöfunda, vanda þýddra bóka á íslensku og bókmenntagagnrýni er af frekar skornum skammti, verður ekki talað um sigurför bóklesturs, eða sigurför bókmennta á Íslandi, heldur hægan, kvalalítinn dauða þeirra.

Bókmenntafólk, bókaforlög, bókabúðir og allir þeir sem hafa áhuga á lífi í íslenskum bókmenntum verða sennilega að gera sér grein fyrir því að ekkert gerist af sjálfu sér. Það er ekki ríkisins eða menntamálaráðuneytisins að bjarga íslenskri bókaútgáfu. Það er framtak áhugafólks. Bókmenntahátíð í Reykjavík er gott dæmi um slíka drift áhugamanna og annað gott dæmi er frábært og kraftmikið framtak tveggja ungra manna. sem hafa skapað Leslistann. Á Leslistinum er tekinn saman listi yfir það athyglisverðasta sem skrifað er á internetinu um menningarlífi heimsins: Skráning á leslistann.com og vikulega (eða á tveggja vikna fresti) berst þetta fína lesefni í tölvupósti.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.