Espergærde. Tár ballettdansarans.

Í gær setti ég nýja bók vikunnar í gluggann (ugens bog), ég man ekki hvort þessi bók (Bill Bryson, En tur i skoven) hafi áður fengið þennan heiðurssess út í glugga hjá mér – en það skiptir kannski ekki máli. Sama bók getur auðvitað tvisvar sinnum verið bók vikunnar, jafnvel þrisvar sinnum.

Ég minnsti á þetta hér þar sem rétt í þessu hvarf út um dyrnar hjá mér ung kona. Hún hafði bankaði á skrifstofudyrnar fyrr í morgun. En áður en hún knúði dyra hafði hún staðið nokkra stund fyrir utan gluggann og virt fyrir sér bók vikunnar og spegilinn og tindátana (bókaverðina fjóra) sem eru í gluggaútstillingunni. Síðan snerist hún á hæli, gekk að dyrunum, barði laust og opnaði. Ég sit – svo ég útskýri aðstæðurnar – rétt fyrir innan gluggann og rétt við dyrnar því skrifstofan er ekki meira en 20 fermetrar. Hér var fyrr á árum skósmiður, það er að segja áður en þeir hættu að vera til, þegar enn var gert við skó í stað þess að henda þeim og kaupa nýja. (Co2!!!). En hvað um það. Skyndilega stóð þessi unga kona í dyrunum. „Fyrirgefðu,“ sagði hún. „Má ég aðeins trufla þig.“ Ég íhugaði svarið. Satt að segja truflaði hún mig því ég var í stuði og vildi helst ekki láta ónáða mig en samt svaraði ég hikandi „Allt í lagi, komdu inn.“
Sennilega gaf ég til kynna bæði með líkamstjáningu og hinu tónlausa svari að hún var ekki sérlega velkomin. Og það fór örugglega ekki framhjá gestinum.

Ég kannast við þessa ungu konu héðan úr bænum því hún sker sig nokkuð úr fjöldanum. Sérstaklega þar sem hún er mjög fínleg – grönn, sterk, nokkuð hávaxin og ber sig eins og ballerína. Þar að auki er hún með rasssítt hár í rastafléttum. Stundum bindur hún flétturnar upp á hausinn á sér svo hárið líkist þykkum lopahatti eða hreiðri stórra fugla. Ég hef aldrei talað við þessa ungu, spengilegu konu en svo stóð hún skyndilega í dyraopinu hjá mér.
„Komdu inn,“ endurtók ég, „gerðu svo vel. Má bjóða þér kaffi.“ Þetta sagði ég án þess að vita erindi hennar en nú með meiri vinsemd til bæta upp fyrir tregðu mína þegar hún opnaði dyrnar. Mér fannst ég dálítið leiðinlegur að taka svona illa á móti konunni.
„Takk, já takk, kaffi væri gott,“ sagði hún, gekk varlega inn og lokaði á eftir sér. Ég var hálfhissa á að hún skyldi þiggja kaffibollann. Ég hafði alls ekki reiknað með því.
Ég benti henni á hægindastólinn í horninu sem hún settist í. Þegar ég hafði hellt kaffi í bollann hennar og líka bollann minn tyllti mér andspænis henni á skrifstofustólinn minn sem ég hafði rennt inn á gólfið.

Hún svipaðist um á skrifstofunni, leit upp veggina, á borðin sem eru full af bókum og á myndirnar, en þær standa á hillu hér við einn vegginn.
„Hvað ertu að gera hérna?“ spurði hún svo.
„Ég er að skrifa,“ sagði ég.
„Hver er eiginlega meiningin með þessari bók vikunnar í glugganum? Ég hef svo oft gengið framhjá og furðað mig á þessu.“
„Þetta er þjófavörn,“ sagði ég og glotti.
„Ha, þjófavörn … hvernig þá?“ Hún horfði hissa og vantrúuð á mig.
„Ja, ég hugsa sem svo ef þjófar eru hér á ferð dettur þeim aldrei í hug að brjótast inn þar sem bók er í glugganum. Bækur eru einskonar merki um fátækt og úrelt tæki. Ég dreg að öðru leyti fyrir gluggann svo þeir sjá ekki stóru Mac-tölvuna sem þeir girnast.“
„Já, snjallt. Ég hélt að þú værir bara svona mikill bókaaðdáandi og vildir breiða út boðskap bókmenntanna.“
„Já, það vil ég líka. Mér finnst gaman að hafa bók vikunnar í glugganum.“
„Mér finnst svo flott hérna hjá þér, mér líður vel, má ég ekki bara sitja hérna áfram á meðan þú vinnur?“

Bæði þessi játning og beiðnin kom flatt upp á mig og ég vissi að ég gat ekki orðið við óskum stúlkunnar. Að hafa einhvern sitjandi yfir mér á meðan ég reyni að einbeita mér að skrifa gengur bara ekki.
Hún virtist sjá þessa hugsun sveima um hugann á mér – kannski í augunum á mér – svo hún var fljót að setja upp bros sem lýsti upp þetta alvarlega andlit.
„Ég var bara að grínast, en ég meina að mér finnst flott hérna hjá þér. Veistu hvað ég hugsa alltaf þegar ég geng framhjá og sé bókina þína í glugganum og þig á bak við tölvuna.“
„Nei, ég veit ekki hvað þú ert að hugsa.“
„Þarna situr hann bókamaðurinn, hugsa ég. Í framhaldi hugsa ég líka: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“
„Er þetta ekki úr Biblíunni?“
„Nei, þetta er ljóð.“

Og svo stóð hún upp, rétti mér tóma kaffibollann. „Takk,“ sagði hún og gekk í átt til dyranna.
„Ég fæ kannski að setjast aftur hjá þér og drekka einn kaffibolla þegar ég geng hérna fram hjá? Ég skal ekki sitja lengi. Ég á leið hér um að minnsta kosti tvisvar á dag. Ég bý rétt hjá.“ Og svo veifaði hún með því að lyfta vinstri hönd óvenju hátt og svo vaggaði hún úlnliðnum hægt og tígullega; alveg eins og ballettdansari mundi gera. Ég hefði átt að spyrja hvort hún dansaði ballett.

Bókmenntamoli: Ríkisútvarpið hefur gefið (jólagjöf) þjóðinni frían aðgang að þremur hljóðbókum: Elín. Ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur, Hjartastaður eftir Steinunni Sigurðardóttur og Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason. Kaktusinn mælir sérstaklega með bók Hallgríms. Höfundur les sjálfur og fer Hallgrímur hreinlega á kostum sem upplesari. Til að hlaða niður hljóðbókina hans Hallgríms er hlekkurinn hér.

Maður getur gert tvennt í einu með hljóðbók í eyrunum. Hlustað og ryksugað, hlustað og prjónað, hlustað og keyrt bíl eða hlustað og setið í járnbrautarlest í átt til áfangastaðar.

Minni einnig á áskorunina #heimsmælikvarði2030

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.