Ég elska hlaupaár, sagði söngkonan sem ég mætti á götu í morgun. Hún er ljóshærð, hlý, brosmild og hafði farið í rauða ullarpeysu til að halda út frostið. Hér í Danmörku er dimmt á janúarmorgni og kalt. Þegar ég sagði henni í óspurðum fréttum að í ár væru tuttugu og níu dagar í febrúar, (en það uppgötvaði ég í gærkvöldi) hrópaði hún hálfhátt: „Ég elska hlaupaár. Við fáum aukadag.“ Ég skynjaði að hún hafi misskilið eitthvað, ég held að hún haldi að hún hafi fengið einn aukadag í lífinu. Að febrúarmánuður hefði óvænt gefið henni dag sem hún annars hefði ekki lifað. Ég hafði ekki brjóst í mér til að leiðrétta þennan misskilning sem hafði lýst upp myrkan janúarmorgun í lífi söngkonu.
Bókmenntamoli: Það gerast tíðindi þann 86. dag ársins 2020. Það er mikilvægur dagur í bókmenntalífi landsmanna og eiga tíðindin örugglega eftir að rata á forsíður dagblaðanna, vera fyrsta frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins og félagsmiðillinn facebook á eftir að standa í björtu báli þennan dag. Enginn kælibúnaður mun megna að kæla facebook niður. Ég held að rétt væri að landsmenn setji kross á dagatalið. Þann dag, 26. mars, kemur nefnilega á götuna ljóðasafn Jóns Kalmans Stefánssonar. Í safninu verða gömlu ljóðabækur hans, sem eru löngu uppseldar, prentaðar að nýju. Þegar betur er að gáð er ekki rétt að segja að bækurnar séu löngu uppseldar því megnið af upplagi tveggja fyrstu ljóðabókanna lenti í ruslatunnu í bakgarði við Karlgötu 24 árið 1990. Í nýja safninu eru sem sagt bækurnar: Með byssuleyfi á eilífðina (1988). Úr þotuhreyflum guða (1989). Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju (1993). Auk ljóðanna, úr gömlu ljóðabókunum, birtast ný ljóð eftir Kalman, fersk og beint úr ljóðadjúpunum. Nei, nú heyri ég hérna utan af mér að þetta sé ekki rétt. Það var hætt við að birta hin spriklandi fersku ljóð í ljóðasafninu.
Myndin hér að neðan sýnir Jón Kalman afhenda þáverandi umboðsmanni sínum Einari Fal handritið að bókinni Með byssuleyfi á eilífðina (fyrsta bók Jóns Kalmans) til yfirlestrar. Svo skemmtilega vill til að þetta afrit af myndinni, sem varðveitt er í skjalasafni í kjallara á Källargränd 4 í Gamla Stan í Stokkhólmi, barst mér einmitt í vikunni í pósti frá gömlum félaga úr alþjóðlega bókabransanum.
