Ég verð alltaf jafnhissa þegar síminn minn hringir. Ég trúi varla mínum eigin eyrum og ríf upp símtólið sem ég geymi oftast í vasanum mínum og stari á skjáinn, jú, það er ekki um að villast. Síminn minn hringir og svo svara ég … oftast. Þetta gerist í mesta lagi einu sinni annan hvern dag. En í gær var dagur undantekninga. Það var látlaust ónæði frá þessum nýja óvini sálarfriðarins; hringingar án afláts.
Sjálfur sat ég á skrifstofunni fyrir hádegi en flutti mig heim af því að mér var svo kalt. Það er ansi napurt á skrifstofunni minni þegar vindurinn blæs og hitinn fyrir utan er undir frostmarki. Mér var ískalt og þegar mér er ískalt, og sit kyrr, verð ég svo syfjaður. Ég ákvað því að ganga heim um hádegi, fá mér að borða og leggjast svo undir teppi í hálftíma á meðan ég fékk hitann aftur í kroppinn. Ég var það sem í mínum orðaforða kallast kjarnakaldur.
Ég lagðist í sófann eftir hádegismatinn með ullarteppið ofan á mér og setti plötu á fóninn. Ég er ekki frá því að ég hafi blundað því þegar síminn hringdi (í fyrsta skipti af mörgum þennan dag) hrökk ég upp með ægilegum hjartslætti. Eiginlega varð ég gífurlega vonsvikinn yfir að vera rifinn upp úr þessum sæta og sæla svefni. (Ég hafði ekki sofið vel nóttina áður þar sem ég hafði spilað tveggja tíma langan tennisleik kvöldið á undan og það fer illa í kroppinn á mér.)
Á hinum enda línunnar sönglaði karlmannsrödd, það var eitthvað glaðhlakkalegt yfir tóninum og ég heyrði ekki almennilega hvað fór fram hjá viðmælanda mínum. Var þetta söngur?
„Hér kemur succes
stormandi niður hlíðina mína.
Hér kemur bíllinn minn.
Hér kemur kínverska teppið mitt.
Hér kemur succes.“
Bókmennamoli: Hér kemur listi yfir þær bækur sem af sumum geta talist bækur áratugarins (2010-2019):
1. L’Amica Geniele -– Framúrskanandi vinkona. Elena Ferrante (2011) Napólí, ítalski bærinn í suður-Ítalíu, hefur allt þar til Ellena Ferrante sendi frá sér fyrsta bindið í hinni svokölluðu Napólí-bókaflokki, L’Amica Geniele -– Framúrskaradi vinkona, verið bær karlmanna og heimur þar sem gildi karlmanna hafa ráðið. Harður heimur. En með sögunum um hinar snjöllu vinkonur Elena Greco og Lila Cerullo, sem fæðast og eyða uppvaxtarárum sínum í þessum fátæka og ofbeldisfulla bæ, er Napólí allt í einu lýst með ljóðrænum hætti og með augum kvenna. Viðkvæmnisleg og innileg mynd er annars vegar dregin upp af hinni skítugu Napólí og hins vegar af sambandi tveggja vinkvenna. Napólibókaflokkurinn (Framúrskarandi vinkona, Saga af nýju ættarnafni, Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi, Sagan af barninu sem hvarf ) er fáanlegur á íslensku.
2. Min kamp – Mín barátta. Karl Ove Knausgaard. (2009-2011) Í sex bindum lýsir Norðmaðurinn Karl Ove Knausgaard lífi sínu og dregur ekkert undan. Þetta er selfie á 4000 blaðsíðum og með þessu verki sögðu sumir gagnrýnendur að þar með hefði skáldsöguramminn verið sprengdur í 4000 einingar. Sumir töluðu jafnvel um að nýr Proust væri fæddur! Kannski var sú siðfræðilega umræða sem fylgdi í kjölfar útgáfu bókanna ekki síður mikilvæg en sjálf skáldsagan/ævissagan/sjálfsævisagan. Min kamp, sem hefur enn ekki komið út á íslensku, var skrifuð á tveimur árum 2009-2011 og afhjúpaði bæði höfundinn sjálfan sig en ekki síður sína nánustu. Kona hans Linda, sem þjáist af geðhvörfum, börn þeirra, foreldrar og vinir fá allir sína kafla í bókum Knausgaards og ekki voru allir jafnhrifnir að lesa um sjálfa sig á síðum Min Kamp. Verkið er kannski nokkuð byltingarkennt en um leið dæmigert fyrir tíðarandann þar sem ekki er lengur neitt óvenjulegt við að menn fjalli um veikleika sína og leyndarmál á hinum svokölluðu samfélagsmiðlum.
3. Submission – Undirgefni. Michel Houellebecq (2015) Bókin lýsir Frakklandi árið 2022 þegar flokkur muslíma vinnur þingkosningar í Frakklandi og flokkurinn velur að stjórna landinu í anda Islam og regluverki Islams. Bókin vakti gífurlega athygli ekki síst vegna þess að sama dag og bókin kom út voru blaðamenn og teiknarar á tímaritinu Charlie Hebdo skotnir í hefndarskyni fyrir háðulega meðferð á Múhameð spámanni á síðum tímaritsins. Vinur minn Houellebecq hefur skrifað sterka skáldsögu með Undirgefni, þar semhann lýsir leit og þrá einmana karlmanna eftir einhverju sem er meira og handan við það sem fæst keypt, líf sem býður upp á annað en frosnar pizzur og kynlíf fyrir peninga. Til dæmis ást og kærleik. Friðrik Rafnsson hefur þýtt Undirgefni.
4. Normal People – Eins og fólk er flest. Sally Rooney (2018). Hún er 28 ára hún Sally Rooney, fædd 20. febrúar árið 1991. Hún hefur skrifað tvær skáldsögur, Samtöl við vini og Eins og fólk er flest og hefur tekið til umfjöllunar viðfangsefni sem einmitt eru efst á baugi í samtímanum. Hún skrifar með einhverri orku um kynlíf, vinskap, ójöfnuð, ást og ofbeldi og ekki síst um hin óljósu kynmörk (eða hvað maður kallar þetta LGBTQ… eitthvað …) og einmitt þessi orka hefur þegar gert hana að afar dáðum, elskuðum og vinsælum rithöfundi. Einmitt það sem marga rithöfunda dreymir um. Bækurnar hafa komið út á íslensku í þýðingu Bjarna Jónssonar.
5. Exit West – Í vestur. Mohsin Hamid (2017). Höfundurinn Moshsin Hamid er það sem hann sjálfur kallar „blendingur“. Hann er fæddur í Pakistan, menntaður í Bandaríkjunum og búsettur í London. Skáldsagan Exit West er framúrskarandi frásögn um árekstrana milli hefða og hins nútímalega og setur fram eina af mikilvægustu spurningum síðustu ára: Hver hefur rétt á að flýja? Hvert á maður að flýja – og hvernig?