Espergærde. Fluggírinn

Umræðuefni gærdagsins var þetta eilífa hjal um hverjir fá listamannalaun, eða rithöfundalaun, hverjir ekki og hve lengi eða hve stutt. Ríkið útdeilir 46 árslaunum. til rithöfunda á ári. Að vera rithöfundur á launum hjá ríkinu er furðuleg staða. Margir sjá ofsjónum yfir þessum sultarlaunum og á hverju ári eru myndbirtingar af þeim sem þiggja launin eins og menn hafi unnið í happadrætti eða framið glæp. Ég tel að flestir rithöfundar vinni vel fyrir launum sínum og mér finnst sjálfsagt að hluti skattapeninga sé notaður til að halda úti bókmenntalífi í landinu, án þess að allir fjölmiðlar tíundi það ár hvert hverjir séu hinir seku að taka við þessari ölmusu frá ríkinu. (Útgjöld ríkisins við að greiða þessa 555 mánuði til rithöfunda er ekki mikið hærri en kostnaður við nokkrar ráðstefnuferðir annarra opinberra starfsmanna.) Það eru svo mörg úldin hræ í kringum rithöfundalaun, öfund, baktal og fuss. Og svo er þessi óþolandi félagshjálparstimpill yfir laununum. Það er óhugsandi fyrir Arnald Indriðason eða Ólaf Jóhann Ólafsson eða Yrsu Sigurðardóttur að sækja um þessi laun. Þau selja of vel. Launasjóðurinn hefur fengið hlutverk tekjujöfnunarsjóðs. Er það hlutverk rithöfundasjóðs að sjá um að jafna tekjur rithöfunda? Er skattakerfið ekki ágætt til þess? Maður hefði haldið að laun til rithöfunda ætti bara að vera í takti við framlag hvers og eins. Þannig er það í öðrum störfum.

En ég get ekki annað en dáðst að höfundum eins og Yrsu Sigurðardóttur, Ragnari Jónassyni, Ólafi Jóhanni, sennilega eru höfundarnir miklu fleiri, sem skrifa bók á ári og vinna fulla vinnu með. Mér finnst það töluvert afrek.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.