Ég las um daginn um mann sem seint á lífsleiðinni komst í kynni kveðskap íslensku atómskáldanna. Sú viðkynning breytti lífi hans. Hann varð svo uppnuminn og svo hrifinn að líf hans fór að snúast um ljóð, lestur og bókmenntir almennt. Svo mjög sótti þetta nýja áhugamál á hann að hann átti mjög erfitt með að skilja að fréttir af atómskáldunum eða öðrum mikilvægum rithöfundum væri ekki daglegt forsíðuefni dagblaðanna. (Þetta var á þeim árum þegar fólk hunsaði hvert annað á bak við dagblöð ekki símaskjái.) Þessu átti hann erfitt með að kyngja og hafði meðal annars samband við þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Matthías Johannessen, til að spyrja hvort ekki væri rétt að breyta áherslum Morgunblaðsins svo fréttir af listviðburðum væri aðalfréttir blaðsins. Hvers vegna var ekki forsíðumynd af Þorsteini frá Hamri á leið eftir Smáragötunni með lítinn poka úr bakaríinu? Eða frétt af því þegar Hannes Pétursson fór í sumarfrí til Skagafjarðar? Væri ekki frábært að sjá Hannes á spjalli við skagfirska bændur; væri það ekki frábært myndefni fyrir forsíðurnar?
Mér datt þessi saga í hug í gærkvöldi þegar ég greip danska dagblaðið Politiken (laugardagsblaðið sem ég fæ sent á iPadinn minn kvöldið fyrir útgáfudag). Forsíðu dagblaðsins prýðir hvorki meira né minna en myndir af sjö skáldum sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlauna Politiken. Ég er sammála manninum. Mér þykir þetta frábært – en ég veit að fáum öðrum þykir þetta jafnstórkostleg – og ég vildi óska að íslenskir fjölmiðlar gerðu listviðburðum jafn hátt undir höfði; tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á forsíðu (hehe!). Ég er viss um að ef áhersla dagblaða og fjölmiðla væri á þennan hátt væri samfélag mannanna enn betra. Við gæfum hvert öðru gætur og mundu hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka.
Þetta var nú kærleiksboðsskapur dagsins og um leið bókmenntamoli.
