Ég las frétt fyrir nokkrum dögum um að ástarbréf breska skáldsins T.S. Eliot til gamals skólafélaga síns í Princeton háskólanum í Bandaríkjunum hefðu í upphafi árs verið gerð opinber. Nú í ár eru 55 ár liðin frá dauða skáldsins. T.S. Eliot var frægur og fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1948.
Mér verður alltaf hugsað til sjónvarpsmannsins Egils Helgasonar þegar T.S. Eliot ber á góma. Sú saga gekk nefnilega, þegar ég var kornungur og nýbúinn að stofna bókaforlag, að sá maður sem mest mætti vænta af í skáldskap á næstu árum væri Egill Helgason. Egill var þá í sjálfu sér ekkert sérlega frægur, ég vissi hver hann var en þekkti hann ekki. Menn pöruðu í þá daga alltaf Illuga Jökulsson saman við Egil. En þær sögur gengu um Egil að hann ætti í fórum sínum eigin þýðingu á frægasta ljóði T.S. Eliot Eyðilandinu sem enginn hafði megnað að þýða. (En sá snjalli þýðandi Sverrir Hólmasson þýddi ljóðið held ég síðar .„.. græðir grös úr dauðri moldinni, hrærir girndum saman við minningar, glæðir vorregni visnaðar rætur.“ (Ég sleppi fyrstu línunni hún fer í taugarnar á mér, er orðin svo svakaleg klisja.)
En hvað um það. Vordag einn fyrir mörgum árum var ég á leið heim frá forlagsskrifstofunni (ég bjó þá í Eskihliðinni). Ég var fótgangandi og á móti mér kom (ég get líka sagt „kemur“ ef ég vil nota sögulega nútíð eins og sumir hallast mjög að) rauðhærður og glaðhlakkalegur náungi. Við vorum staddir neðst í Eskihlíðinni þar sem fyrsta búð Hagkaupa var einu sinni til húsa. Ég ákvað að heilsa þessum grallaralega náunga, sem arkaði með kæruleysislegu fasi á móti mér í hálfrökkrinu, og hugðist ég sannfæra hann um að klára skrifa þessa skáldsögu sem bókmenntaelíta Reykjavíkur talaði mjög um og beið eftir með öndina í hálsinum. Ég skildi fúslega gefa hana út. Ég gerði mitt besta til að selja honum forlagið mitt sem góðan stað til gefa út skáldsöguna. Egill tók þessum bjartsýna og barnalega unga útgefanda opnum örmum. Hann var vinsemdin uppmáluð og hann skyldi sko koma með skáldsagnarhandritið til mín, það er þegar hann væri búinn að skrifa. „Engar áhyggjur,“ sagði Egill. „Ég kem til þín …“
Ég varð gífurlega stoltur af hugdirfsku minni að grípa Egil og kampakátur með viðtökur Egils og var viss um að á næstu vikum ætti ég von á snillingnum á forlagsskrifstofuna með vélritað handrit, klárt til útgáfu. Handritið kom því miður aldrei þótt ég biði stundum fram á kvöld eftir Agli og handritinu hans. Enn lætur Egill bíða eftir sér og ekki hefur þessi langþráða skáldsaga litið dagsins ljós.
En ég var sem sagt að hugsa um T.S. Eliot. Ástarbréf hans, 1100 talsins, voru gerð opinber í upphafi árs. Bréfin, sem voru pökkuð ofan í trékassa og bundin saman með koparþræði, opinbera nýja hlið á skáldinu sem samkvæmt innihaldi bréfanna var gersamlega viti sínu fjær af ástarbríma til konu að nafni Emily Hale.
Eliot og Hale hittust árið 1912 þegar þau stunduðu bæði nám við Harvard háskólann í Bandaríkjunum. Nokkrum árum síðar flutti Eliot til baka til Englands þar sem hann árið 1915 giftist Vivienne Haigh-Wood. Hjónabandið hélt honum þó ekki frá því að skrifa logandi heit ástarbréf til Emily.
Í fyrstu leit Emily Hale á Eliot sem náin vin en smám saman rann upp fyrir henni að Eliot bæri brennheitar tilfinningar til hennar. Hún bjó enn í Bandaríkjunum og hann í Englandi en þessi linnulausu bréfaskriftir héldu sambandinu volgu.
„Ég reyndi að telja sjálfum mér trú um að ást mín til þín væri kulnuð, en það tókst mér bara ef ég taldi mér trú um að hjarta mitt væri hætt að slá,“ skrifar hann í einu bréfinu.
Vandinn við þetta samband var bara sá að kona Eliots bjó með skáldinu, að vísu veik á geði en hjónaband batt þau saman. Síðar þegar kona hans endaði á geðveikraspítala fóru Eliot og Hale að hittast reglulega. Þótt hann væri enn giftur kom það ekki í veg fyrir að tilfinningar Hale til Eliot urðu sífellt ákafari. Og ekki bara það. Ef kona Eliots mundi deyja vonaði hún og reiknaði með að þau tvö myndu giftast.
Vivienne Haigh-Wood lést árið 1947 en vonir Hale rættust ekki heldur þvert á móti varð Eliot allt í einu fjarlægur og samband þeirra lognaðist út af. Og ekki varð Hale kátari þegar Eliot gifti sig aftur árið 1947. Valerie Fletcher varð kona hans númer tvö.
Þar með hefði sagan um Eliot og Hale getað endað. Nei, Hale hafði ekki sagt sitt síðasta orð því árið 1960 tilkynnti hún skáldinu að hún hefði afhent bókasafninu í Princetonháskólanum öll bréf hans til hennar. Eliot varð æfur og sendi bókasafninu bréf, eða einslags yfirlýsingu, sem skyldi lesin um leið og bréfin yrðu gerð opinber.
„Ég var ekki ástfanginn af Emily Hale,“ skrifar Eliot í yfirlýsingu sinni. Ef eitthvað hefði orðið af sambandi þeirra tveggja hefði skáldið í honum dáið. „Ég var fyrir löngu búinn að sjá að hún skildi ekki ljóð og var alls ekki áhugasöm um ljóðin mín. Ég uppgötvaði að hún var tilfinningaköld og hafði lélegan smekk. Kannski er grimmt að segja það en ég held að hún hafi frekar verið upptekin af frægð minni en starfi mínu.“
Jamm, svona var það víst.