Espergærde. Nýtt eða gamalt?

Ég hef lært það á minni löngu ævi að maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til reiði. Um þetta hugsaði ég á morgungöngu minni til skrifstofunnar. Ég veit ekki af hverju þetta kom í huga minn; ég reiðist sjaldan (en það kemur fyrir og þá er það einmitt hin svokallaða snöggreiði sem blússar upp í hausinn á mér og ég fæ engu ráðið.) Ég á ekki í vandræðum með að vera seinn til að tala því ég er ekki sérlega ræðinn að eðlisfari.

Þótt þessar hugsanir hafi snúist upp í hausnum mér á göngunni þá er bókavalið fyrir Parísarferðina á morgun minn mesti höfuðverkur. Eiginlega var ég búinn að ákveða að lesa bara Kazuo Ishiguro. Ég held að ég hafi gott af því að lesa hann í París þegar ég ætla að skrifa frá morgni til kvölds (markmiðin eru háleit, kannski of háleit, kannski ætla ég mér um of.) Í mínum huga er tónninn í skrifum Ishiguro það flottasta sem ég veit og hann er eins og gamall vinur. Það er þannig í mínum huga að eftir því sem maður eldist því áhugasamari er maður um sína gömlu vini og miklu áhugasamari um að þróa fornan vinskap en að eignast nýja vini. Allt verður dýpra. Maður er búinn að fara svo oft í gegnum allt þetta spjall sem maður á með nýjum vinum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.