Klukkan 5:19 var ég kominn af stað í átt til lestarstöðvarinnar í Espergærde. Ég var kannski fyrr á ferðinni en ég ætlaði en ég hafði aðeins misreiknað tímann og var miklu fljótari að verða ferðbúinn en ég hafði gert ráð fyrir í útreikningum mínum. Göturnar í Espergærde eru furðu drungalegar í þessari síðnótt. Hundaeigendurnir eru ekki komnir á stjá með hunda sína og heldur ekki hinir óþreytandi skokkarar sem hlaupa nokkra kílómetra fyrir vinnu. Sem sagt ég var einn úti í myrkrinu og einhvern veginn sóttu á mig hugsanir um innbrotsþjófana sem hafa herjað á bæinn undanfarnar vikur. Skyldi ég koma þeim í opna skjöldu þar sem þeir væru að sniglast í skúmaskotum, eða á leið með þýfi sitt út í flóttabíl. Ég hafði sett headphones í eyrun á mér til að hlusta á poadcast frá BBC; fléttuþátt eins og Jón Hallur hefði kallað þessa tegund þáttagerðar fyrir útvarp. Slíkum útvarpsþáttum fylgja alltaf einhver bakhljóð, símhringingar, hurðum lokað, ískur í skrifstofustól og sú tegund tónlistar sem á að magna áhrif, gera hið dularfulla dularfyllra.
Undir þessum útvarpsþætti hraðaði ég mér eftir mannauðum og drungalegum götum Espergærde á leið út á lestarstöð. Þetta er nákvæmlega 12 mínútna gangur eftir götum sem eru fáfarnar jafnt á nóttu sem degi. Ég mætti engum, sá engan, ekki einu sinni þjófa á flótta. Það var ekki fyrr en á lestarstöðinni sjálfri, á brautarpallinum að ég sá fyrstu mannveruna og hún var ekki gæfuleg. Í efstu tröppunni frá undirganginum (undir lestarteinana) stóð hokinn maður í síðum frakka. Hann bograði og ég sá strax að ekki var allt í lagi með manninn. Ég fékk það snarlega staðfest þegar ég gekk upp tröppurnar í átt til mannsins og stór ælubogi stóð út úr munni mannsins og niður á tröppurnar. Ælan var svo kröftug að stórar slettur frussuðust í allar áttir í stóran hring í kringum miðju ælupollsins. Skór og buxur ælumannsins voru útataðar í matarleifum næturinnar. Ég flýtti mér framhjá og lét sem ég sæi ekki aðfarirnar. Þegar ég leit um öxl hafði maðurinn reist sig upp og var að þurrka sér um munninn með handarbakinu.
