Einn dagur í París að baki og ég nefni það strax að afköstin á fyrsta degi voru 107%. Ég hafði alls ekki reiknað með að vera í sérstöku vinnustuði á upphafsdegi ferðarinnar, sérstaklega þar sem ég fór á fætur klukkan rúmlega fjögur um nótt til að vera kominn í tæka tíð á flugvöllinn í Kastrup. En hér er ég í París og ég vaknaði í Batman-íbúðinni snemma í morgun eftir fremur væran nætursvefn.
Á ferðum mínum í París hef vanið mig á að borða morgunmat á litlum kaffistað á jarðhæðinni við hlið Batman-íbúðarinnar. Þótt ég sé ekki sérlega hrifinn af kaffinu þeirra (þau nota þessar svakalega bitru kaffibaunir í espressoinn). Gífurlegur metnaður hvílir yfir kaffigerðinni; kaffiduftið er vigtað nákvæmlega og ég held að þau geri eitthvað aukalega við vatnið sem þau nota við uppáhellinguna. En þótt ég sé ekki yfir mig ánægður með sjálft kaffið er andrúmsloftið á staðnum gott. Kaffiþjónana er ég farinn að þekkja og í morgun voru sérstakir fagnaðarfundir þegar ég kom inn.
„Nei, monsieur! Eruð þér kominn aftur? Hve lengi verðið þér í þetta sinn. Sjö daga, afar gott … Fáið yður sæti, ég færi yður kaffi.“
Þetta kann ég að meta; að vel sé tekið á móti hinum nefstóra Íslendingi. Eins og ég er vanur á Parísardögum ætlaði ég mér að skrifa á tölvuna mína dagbókarfærslu dagsins á hippsterakaffihúsinu. Ég hafði vart opnað tölvuna þegar veitingar dagsins voru bornar á borðið; hið bitra kaffi og ristað brauð með osti.
„Fyrirgefið, monsieur.“
Ég leit upp. Sá sem sat við hliðina á mér, miðaldra maður með stórt höfuð og stingandi augu, leit líka upp.
„Oui,“ svaraði ég.
„Fyrirgefið forvitnina, en við hvað starfið þér?“ spurði eigandi staðarins, sá sem hafði tekið svona vel á móti mér. En þetta er ungur drengur, ja, ungur drengur er fullmikið sagt, ungur maður er nákvæmari lýsing því hann er örugglega á aldur við Sölva, um þrítugt. Ég leit á unga manninn, en sessunautur minn með stóra höfuðið leit á mig og beið þess að ég svaraði þessari auðmjúku spurningu.
Já, við hvað starfa ég? hugsaði ég. Þetta er góð spurning. Ekki get ég kallað mig þýðanda þótt ég þýði stundum bækur, og ekki get ég kallað mig rithöfund þótt ég hafi fengið útgefna eina bók. Það er auðvitað glatað að segja að ég sé fyrrum útgefandi. Það er ekki starf. Ég fann að ég var kominn í klípu frammi fyrir þessum vinsamlega kaffihúsaeiganda.
Hvert er starfsheiti mitt? Ég hikaði og ég fann að höfuðstór beið líka eftir svari. Örvæntingarkenndin óx hratt í brjósti mér.
„Ég er hjartalæknir,“ svaraði ég fljótmæltur.
„Eruð þér hvað?“
Hvorki kaffihúseigandinn né sá höfuðstóri virtist skilja þetta starfsheiti, cardiologist, á ensku svo neyð mín varð enn átakanlegri. Báðir horfðu eftirvæntingarfullir á mig og biðu eftir skýringu á þessu sérkennilega starfsheiti.
„Ég lækna hjörtu,“ svaraði ég.
Um leið hringdi sími höfuðstórs og hann sneri sér að símtalinu en ungi kaffihúseigandinn kinkaði kolli í viðurkenningarskyni. Hann var ánægður að hafa hjartalækni á staðnum.
Ég hristi höfuðið yfir sjálfum mér, opnaði dagbókina og íhugaði hvað ég vildi segja í tilefni dagsins en höfuðstór við hliðina á mér var kominn í ákafar samræður í símanum við einhvern sem hann var líklega eitthvað ósáttur við. Orðaskiptin virtust hvöss. En ég skil ekki orð í frönsku og stundum misskil ég tóntegundina og tel sakleysisleg samtöl vera háværar deilur. Ég átti þó mjög erfitt með að einbeita mér að dagbókarskrifum með manninn hálfhrópandi við hlið mér. Ég gaut augunum á hann og hann leit á mig og nú virtist hann beina orðum sínum til mín. Ægilegt flóð franskra orða skolaðist yfir mig án þess að ég fengi rönd við reist. Ég vissi ekkert hvað erindi höfuðstór átti skyndilega við mig.
„Are you talking to me?“ spurði ég og benti á sjálfan mig með ýktu látbragði.
Nú lagði höfuðstór símann að brjósti sér, gerði hlé á samtalinu og hallaði sér að mér.
„What … What did you say?“
Höfuðstór hafði einkennilega stingandi augu og þegar hann yrti á mig fann ég hvernig þau boruðu sig svo djúpt inn í mig að eina ráðið til að losna undan þessum augnþrýstingi var að svara skjótt.
„Ég spurði hvort þú værir að tala við mig.“
„Nei, því skyldi ég tala við þig? Þekkjumst við?“ og aftur boruðust augun inn í mig svo þrýstingurinn var nánast óbærilegur.
„Nei, fyrirgefðu. Smá misskilningur.“
Hann bar símann aftur að eyranu á sér og hóf á ný sínar áköfu samræður, en höfðinu sneri hann ávallt í átt að mér eins og orðin væru mér ætluð. Nú skildi ég að minnsta kosti að hann beindi ekki orðunum til mín þegar hann talaði í símann þótt svo gæti virst. En ég fann að ég gæti ekki formað eina hugsun af viti undir þessu háværa samtali í síma svo ég kláraði morgunmatinn í hasti, kasti kveðju á hipsterkaffiþjónana sem komu – allir þrír – fram fyrir afgreiðsluborðið til að kveðja hinn mikla hjartalækni með innilegu handabandi.

Ein athugasemd við “París. Hjartalæknirinn”