París. Svona getur manni liðið

Í gær var ég fús til að nota 80 mínútur af mínum dýrmæta tíma hér í París til að sækja mér bók eftir Kazuo Ishiguro á ensku. Ég tók nokkrar bækur eftir meistarann með mér hingað til Parísar en þær eru á íslensku. Þótt íslenskar þýðingarnar á bókum hans sé afburðafínar þráði ég samt að heyra hina ensku rödd skáldsins. Svona getur manni liðið. Ég arkaði því af stað rétt eftir hádegi í gær. Ég hafði fundið bókabúð, Galignani, á netinu sem bauð upp á gott úrval af enskum bókum og ég var nokkuð sannfærður um að þar gæti ég náð í það sem mig vantaði.

Göngutúrinn var í alla staði vel heppnaður, ég var ánægður að vera á göngu um borgina, hún er stór, borgin, og mér fannst ég hafa gengið bæjarenda á milli þegar ég náði loks á áfangastað. Þegar ég hins vegar leit á borgarkortið sá ég að ég hafði vart fært mig nema rétt um miðja París. Ég heyri svo oft talað um að maður fái sínar bestu hugmyndir á göngu eða hlaupum. Það held ég að eigi ekki við mig. Þótt höfuðið á mér sé alltaf á snúningi þegar ég geng finnst mér ég sjaldnast fá neinar afgerandi hugmyndir á göngu. Ég man bara ekki til þess.

Í bókabúðinni fann ég þrjár bækur sem ég ákvað að kaupa: Never Let Me Go, Kazuo Ishiguro, Grand Union, Zadie Smith og litla bók sem innihélt eina smásögu eftir Ishiguro (í rauninni er þetta novella) sem ég las fyrir mörgum árum; Come Rain or Come Shine. Þessa stuttu sögu las ég svo í gærkvöldi þegar ég lagðist til svefns.

Í morgun átti ég svo stefnumót á hipstera-kaffihúsinu mínu. Sandra er á ferðinni hér í París að boða Carbfix-erindið. Hún tók sér frí frá fundi morgunsins til að hitta sinn aldna föður yfir kaffibolla og avokadobrauði. Aldeilis gott.
Mér varð hugsaði til samtals okkar feðgina frá því í morgun, sem fjallaði að mestu um baráttu skynsemi og tilfinninga, um að setja sig í spor annarra og kannski að setja sjálfan sig til hliðar um stund. Kannski verður maður aldrei sérstaklega góður í því?

Í París með fenginn frá bókabúðinni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.