Það rignir í París og göturnar eru dimmar og gljáandi svartar. Hvorki regnið né myrkrið hefur svo sem ekki mikil áhrif á innipúkann mig. Í gær sat ég linnulaust yfir tölvunni minni frá því að ég kvaddi Söndru um níuleytið í gærmorgun og þar til lokaði tölvunni en þá var klukkan rétt að verða hálf tíu í gærkvöldi. Það reyndist mér erfitt að ná markmiði dagsins í gær. Ég kepptist þó við. Á endanum hafði ég þó náð 101% af markmiði mínu. Yo!
Ég var nokkuð þreyttur þegar ég slökkti á eftir mér í Batman-íbúðinni og gekk út í gærkvöldið. Ég þurfti að fá mér eitthvað að borða og ég hafði ekki heilagetu til að finna upp á einhverju nýju og spennandi. Ég arkaði bara á gamla, ítalska staðinn minn en þangað hef ég ekki komið lengi. Mér til nokkurrar undrunar var mér tekið með kostum og kynjum; faðmlögum og knúsi. Gömlu þjónarnir frá því í fyrra voru enn að vinna og ég velti því fyrir mér hvort þeir hefðu nokkurn tíma farið heim. Vinur minn þjónninn frá Marseilles virðist hafa dottið ofan í súpupottinn því hann hefur safnað á sig smá vömb. En hvað um það, öll þrjú; stúlkan með húðflúrið, ungi maðurinn með gáfulegu augun og vinur minn frá Marseilles komu til að forvitnast um hvernig gengi hjá hinum langa Íslendingi.
„Jú, mér líður vel, takk,“ sagði ég og bætti svo við. „Hvernig líður ykkur? Eruð þið OK?“ Sennilega fannst mér eitthvað óvenjulegt og kannski svolítið dapurlegt við að þetta góða fólk væri fast í þjónastörfum á ítölskum hversdagsmatsölustað. En það er bara fordómar hjá mér. Hvers vegna skyldi það ekki vera gott líf?
Jú, þau höfðu það aldeilis gott, sögðu þau. „Fáðu þér sæti, vinur. Við finnum eitthvað gott að borða fyrir þig.“
Ég met svona framkomu mikils og ég verð bæði hrærður og snortinn og ég veit ekki hvað.
Og svo er ég sestur hér á hipsterkaffistaðnum mínum eftir góðan nætursvefn. Klukkan er rétt orðin átta og ég er ilmandi eftir morgunbaðið. Það er snemma morguns og mér til nokkurrar undrunar er nú setið við hvert borð – ungir hipsterarnir yfir símunum sínum og kaffibollunum. House of the Rising Sun í hátalaranum. Nú er ég ekki lengur ávarpaður monsieur þegar ég kem inn heldur doktor, enda hjartalæknir í hugum vina minna hér. Það breytir auðvitað engu. En ég hristi hausinn yfir sjálfum mér.
ps. Ég náði að lesa heila barnabók áður en ég sofnaði í gærkvöldi. Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur. Bókin vann Fjöruverðlaun í fyrradag (mig hefur alltaf dreymt um að vinna Fjöruverðlaunin) og af því tilefni keypti ég bókina (e-bókina) til að reyna að læra af vönum og verðlaunuðum barnabókahöfundi.