París. Ég játa

Svo það sé skráð – fyrir framtíðina og til að forða þessari vitneskju frá gleymsku og að hún verði síðar fórnarlamb rómatískara ljóss – þá finnst mér setan hér yfir texta frá morgunsárinu og fram á kvöld hunderfið. Hunderfið! Stundum þjáist ég hreinlega bæði líkamlega og andlega. En ég vil líka halda því til haga – í sömu málsgrein – að það koma stundir sem skyggja á angistina og gera hana þess virði að þrauka. Þetta var játning dagsins.

Ég játa: Ég játa trú mína; á góðvildina eða kærleikann. Þessi setning kom bara óvart hér niður á blaðið, ég ætlaði að skrifa eitthvað allt annað. (Þegar ég horfi á setninguna sem spratt svona ósjálfrátt á skerminn átta ég mig á því að það var einmitt þetta og einungis þetta sem ég lærði í sálfræðinámi mínu. Og sennilega það eina sem ég átti að læra og fékk því 10 í einkunn því ég kunni upp á 10 það sem ég átti að læra; góðvildina. Þetta kenndi Balzac þýðandinn Sigurjón Björnsson mér.

Þótt ég hafi átt erfiðan dag yfir tölvunni í gær, náði ég þó markmiði mínu, fjórða daginn í röð. Ég set afkastamarkmiðin hátt því ég vil nýta daga mína í París. Um klukkan hálf eitt tók ég mér hlé, gekk út í bæinn (Parísarborg) til að hreyfa skrokkinn eitt augnablik. Ég hafði velt fyrir mér, á meðan ég reimaði á mig skóna, hvort ég ætti aftur að heimsækja Houllebecq og spjalla við hann um ritstörf og aðferðir við að klára handrit. Ég hefði haft gaman af því. Ég er viss um að hann hefði tekið mér vel; boðið mér með sér upp á volgt hvítvín og Gauloises sígarettu. Ég hefði skrifað hér á Kaktusinn nákvæma skýrslu um samskipti okkar og hneykslað, alla þá sem eru góðir að móðgast fyrir annarra hönd, með því að lýsa í smáatriðum einkahögum Houllebecqs.

En ég gekk ekki í átt til heimilis Houllebecqs heldur í gersamlega andstæða átt. Ég lét sleggju ráða kasti eins og sagt var í gamla daga og ég þaut í austur, norður, suður og vestur og endaði í súkkulaðibúð. (Ég sá það þegar ég kom aftur til baka til Batmaníbúðarinnar og gat notað internetið að ég hafði heimsótt frægasta súkkulaðigerðarmann Parísar.) Mér hafði dottið í hug þegar ég sá súkkulaðibúðina á vegi mínum að Sus þætti gaman að fá eðalsúkkulaði frá Parísarborg og því gekk ég inn. Mér fannst ég eiginlega kominn inn í franska konungshöll því allt var svo fínt. Á móti mér kom sveit laglegra stúlkna í fallegum fötum. Þær hneigðu sig lítillega fyrir mér þegar ég gekk inn, ég hneigði mig á móti. Þær virtust ekki hafa annað hlutverk þessar stúkur en að hneigja sig fyrir þeim sem gengu inn því þær gufuðu upp þegar ég hafði hneigt mig. Ég var eini viðskiptavinur súkkulaðimannsins þessa stundina og til mín komu tvær aðrar stúlkur, álíka laglegar, og héldu á litlum, snotrum diskum með súkkulaðibitum og buðu mér að smakka. Þær tóku súkkulaðibita með silfurtöng og létu detta upp í munninn á mér. Það er langt síðan einhver hefur matað mig. Allt var dálítið yfirdrifið svo ég flýtti mér að kaupa súkkulaði og forða mér út á götu. Ég hafði rekið augun í gullhúðað baðker á miðju gólfinu og allt í einu óttaðist ég að ég yrði settur niður í baðker og skrúbbaður upp úr kakómauki.

Ég kláraði vinnudaginn rétt rúmlega átta í gærkvöldi og hafði ekki orku í annað en að staulast út til ítalska staðarins. Þegar ég gekk inn um dyr veitingastaðarins tóku þau á móti mér á sinn vinsamlega hátt þjónarnir sem ég er farinn að þekkja. „Hó, við erum hér öll,“ sagði mjóa stúlkan með húðflúrið og benti á samþjóna sína tvo; drenginn með gáfulegu augun og þjóninn frá Marseilles.
„Ertu þreyttur,“ sagði vinur minn frá Marseilles og tók utan um öxlina á mér.
„Nei, nei,“ sagði ég.
„Sestu, það er góður matur í kvöld, sestu hérna …“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.