París. Vanadýrið með loðnu eyrun

Félagi minn Jesper K. hefur mig grunaðan um að vera algjört vanadýr, mann sem endurtekur daga sína í sífellu. (Ég er ekki með loðin eyru, ég sagði bara svona í fyrirsögninni). Ég held að hann Jesper K. hafi fengið þessa flugu í höfuðið af því að ég minntist einu sinni á það við hann að ég gengi alltaf sömu leið til vinnu. Síðan þá hefur hann ítrekað talað um þessa mynd sína sem hann hefur byggt upp um mig. Mér er alveg sama um þetta og velti aldrei þessu tuði hans fyrir mér, við hlæjum bara báðir og svo er ekki meira talað um það. En ég veit að hann hefur ekki rétt fyrir sér, ég er ekki vanadýr.

En ég minnist á þetta hér því að á meðan ég dvel hérna einn í Batmaníbúðinni í París er algjörlega hægt að segja að ég sé fastur í munstri vanadýrs með loðin eyru; ég geri það sama dag eftir dag.

 1. Vakna milli sex og sjö. Ligg um stund undir sæng áður en ég fer í sturtu.
 2. Sturta.
 3. Klæði mig og greiði. Skoða mig speglinum til að sjá hvort ég sé ekki alveg eins og í gær. Jú.
 4. Les dagblöðin á iPadinum mínum. Fyrst mbl.is og svo Politiken.
 5. Þegar klukkan er orðin 08:00 geng ég niður á hipsterakaffihúsið. Þangað eru 30 metrar
 6. Panta sama morgunmat morgun eftir morgun; ristað brauð með osti og tvöfaldan espresso. Einu sinni pantaði ég alltaf hafragraut með möndlum en skammturinn var svo gífurlega stór (og mér þykir svo vont að leifa mat) að ég hætti að panta þessa hafragrautskál.
 7. Á kaffistaðnum sit ég venjulega við sama borð (þar sem ég get fengið internettengingu) og hef að skrifa dagbók dagsins. Venjulega klára ég að skrifa hér á Fragments (eins og kaffistaðurinn heitir víst). Stundum tekst það ekki vegna lélegrar internettengingar. Á meðan ég skrifa borða ég brauðið mitt og hlusta á tónlistina sem unga fólkið við barinn spilar af 33 snúninga plötuspilara staðarins. Nú til dæmis hlusta ég á Bob Dylan syngja.
 8. Ég klára brauðið mitt og ég kveð þetta góða fólk sem vinnur hér á kaffistaðnum. Við kveðjumst alltaf hjartanlega. „Doktore, gangi þér vel í dag!“ segja þau, því þau halda að ég sé að fara að lækna hjörtu.
 9. Ég geng upp í Batman-íbúðina, fæ mér kaffibolla um leið og ég tek saman það dót sem ég þarf að hafa í kringum mig þegar ég skrifa (stílabók, penna, minnisblöð (með minningum og án) , vatnsflösku, glas og ferðahátalarann. Ég finn viðeigandi tónlist áður en ég hef sjálf skrifin. Um þessar mundir eru það fyrst og fremst Damon Albarn (Everyday Robots) eða Lera Lynn (random).
 10. Þjáningin hefst: ég les það sem ég skrifaði daginn áður og byrja að betrumbæta og bæta við og svo keyrir eimreiðin non stop.
 11. Ég mæli afköstin stöðugt (rituð orð) og þegar ég er kominn yfir 35% af dagsmarkmiði get ég farið að íhuga að fá mér göngutúr dagsins. Venjulega er klukkan orðin tólf þegar ég næ þessu markmiði.
 12. Göngutúr dagsins, um það bil klukkutíma ganga oft án fyrirfram ákveðinnar endastöðvar. Ég geng bara. Síðustu daga hefur Sus komið með tillögur að gönguleiðum. Á göngunni tek ég stundum myndir, fyrir sjálfan mig og til að skreyta dagbókarfærslu kaktussins. Yfirleitt tala ég ekki við neinn fyrri part dags nema þessar alúðlegu kveðjur sem ég skiptist á við unga fólkið á kaffistaðnum. (Það kemur í ljós síðar í þessum texta hvort ég tala við einhvern síðdegis.)
 13. Á göngunni kemur fyrir að ég stökkvi inn í bakarí og kaupi mér brauð og ost.
 14. Kem aftur heim í Batman. Sest niður, nú öfugum megin borðs, og fæ mér kaffi og brauðflautu með osti áður en ég ræsi eimreiðina.
 15. Aftur að verki. Aftur er eimreiðin sett í gagn og ég sest við tölvu (hinum megin borðs). Yfirleitt kem ég lestinni á skrið með því að lesa það sem ég hef skrifað fyrr og svo keyrir eimreiðin non stop.
  (Rosalega minnir þessi Bob Dylan plata sem spilar hér í bakgrunninn mig á bernskuheimili mitt í Álftamýrinni og samtöl mín við pabba um textagerð Dylans. Hann var ekki aðdáandi popptónlistar.)
 16. Ég skrifa þar til ég hef náð markmiði dagsins. (Þau hlé sem ég leyfi mér er að skoða fótboltaúrslit, hehe). Stundum er klukkan orðin sex en oftast er það seinna. Þegar markinu er náð leggst ég aðeins í sófa undir teppi, því venjulega er mér svolítið kalt. Hitastigið í Batmaníbúðinni er ekki hátt stillt. Það geri ég til að verða ekki syfjaður. Undir teppinu ligg ég stundum og horfi upp í loftið á meðan ég hlusta á tónlist en oftast gríp ég bók og les. Þessa dagana les ég Ishiguro og Zadie Smith.
 17. Stend upp og fer í skó. Geng út. (klukkan er orðin átta eða hálf níu). Ég er svangur. Þessa dagana hef ég ekki haft orku í að velja veitingastaði ég fer þangað þar sem ég þekki mig; ítalska staðinn, eða brúna staðinn. Síðustu daga hef ég valið ítalska staðinn. Maturinn er ekkert stórkostlegur, bara fínn, en ég þarf ekki að velta fyrir mér hvað ég á að borða. Þjónarnir velja fyrir mig það sem þeir telja besta kostinn fyrir langan Íslending.
 18. Í gær fékk ég spaghetti með einhverju góðu frá hafinu hjá ítölunum og rauðvínsglas. Í eftirrétt fékk ég tvöfaldan espresso (mjög góðan) og svo koma þau, elskulegu þjónarnir, með lítið staup af grappa og skála við Íslendinginn. Á þessu augnabliki á ég stutt samtal við þjónana. Venjulega spyrja þau, „hvernig var á skrifstofunni, Orso (þau kalla mmig Orso) eða hvernig gekk á skrifstofunni í dag? Og ég segi í stuttu máli frá deginum hjá mér, hvert göngutúrinn bar mig til dæmis og þau segja mér frá því sem er efst á baugi í París (tískuvikan).
 19. Geng heim. Klukkan er oftast gengin í tíu og ég leggst aftur yfir bók þar til ég er að sofna. Þá stend ég upp til að bursta tennur og hátta mig. Upp í rúmi les ég Politiken morgundagsins. Loka augunum og sofna eins og engill. Á nóttunni ásækja mig skrifin, þær leiðir sem ég íhuga, lausnir sem koma til greina, eitthvað sem ég verð að muna að bæta inn … svona gengur nóttin þar til ég vakna milli sex og sjö. Ligg um stund …

Þetta er nú rútína mín í París og hér í þessari borg á vanadýrshugtak Jespers K. vel við. Nú eru tveir dagar eftir. Þessi sunnudagur og mánudagurinn. Ég hef alla mína Parísardaga náð markmiðum dagsins og ef mér tekst það tvo næstu daga verð ég alsæll með afrakstur dvalarinnar.

Hér birti ég mynd af morgunmat dagsins.

Morgunmatur á sunnudegi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.