París. Sigurhringur munksins

Mánudagurinn hefur læðst hingað til mín í gegnum nóttina og nú finn ég að brátt sný ég aftur til Danmerkur. Einn dagur og ein nótt og svo er ég aftur heima. Ég hlakka til að snúa til baka – en ekki misskilja, ég hef notið hverrar sekúndu hér. Mér finnst það taka svolítið á að lifa þessu harða munkalífi með aðeins eitt fyrir augum; afköst, einbeiting og agi. (Þetta var þrennt, en er bara eitt).

Ég er kannski ekki málglaðasti maður í heimi en í gær taldi ég orðin sem hrutu af vörum mér. Fimm. Ég man þau öll; good, morning, merci, madam, one.

Í gær lá göngutúr minn út í grasagarð þeirra Parísarbúa, Jardin des Plantes. Þetta er 23 mínútna gangur hvora leið. Ég leyfði mér þó að rölta um stund inni í garðinum og skoða visnaðar plöntur og myndirnar á prentuðum spjöldum af þeim þegar þær hafa það gott á sumrin.

Í morgun sagði mér hipstervinurinn hér á morgunkaffinu að hann væri sá sem ætti staðinn ásamt vini sínum. Þetta sagði hann mér eiginlega í óspurðum fréttum. Ég hafði svo sem reiknað út að þessi ungi drengur væri sá ábyrgi; hann ber það með sér. Hann bætti svo stoltur við að hann ætti líka, ásamt þessum sama vini, bakarí rétt við Notre Dame þar sem þau bökuðu súrdeigsbrauð og kanilsnúða.
„En flott,“ sagði ég hrifinn.
„Takk,“ sagði hann og varð feiminn í framan.

Síðast: um afköstin. Ég verð að monta mig við dagbókina mína. Ég hef engan til að monta mig við hér í einsemdinni í Batmaníbúðinni. Í gær náði ég rúmlega 130% afköstum. Yo! Sennilega þarf ég ekki að vinna nema fram að hádegi til að ná því heildarafkastamarkmiði þessarar viku sem ég hafði sett mér. Ég er alveg á ná því! En ég keppist auðvitað við fram á kvöld þrátt fyrir að ég hafi þegar náð í mark. Ég hleyp bara nokkra sigurhringi fram á kvöld.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.